26. des
Fékk frumlega jólakveðju við SvalbarðaAlmennt - - Lestrar 475
Stundum gerast óvænt og skemmtileg ævintýri á sjónum segir Eiríkur Sigurðsson skipstjóri frá Húsavík í Fésbókarfærslu í dag á öðrum degi jóla.
Eiríkur er skipstjóri á rækju-togaranum Reval Viking og var að veiðum í myrkri, stormi og hafís norðan við Svalbarða.
En gefum Eika orðið:
Eftir að hafa verið að veiðum norður í rassgati að undanförnu neyddumst við til að hörfa undan stormi og hafís vestur fyrir Svalbarða og inn á Isfjord á aðfangadag.
Við Isfjord stendur höfuðstaðurinn Longyearbyen þar sem Kristján vinur minn Breiðfjörð, Svavars heitins Cesars- og Guðnýjarson býr ásamt fjölskyldu sinni.
Í gær, jóladag, vorum við að veiðum skammt frá landi við Longyearbyen Þegar Kristján mætti í fjöruna og óskaði okkur gleðilegra jóla með ljósmerkjum á morsi. En fyrir þá sem ekki vita hvað "mors" er, þá er það stafróf sem notað er til fjarskipta með ljós- eða hjóðmerkjum á sjó.
Kristján var að sjálfsögðu alvopnaður enda staddur á kunnum bjarndýra slóðum og skammt frá þeim stað þar sem ísbjörn var manni að bana í haust.
Þetta er frumlegasta og skemmtilegasta jólakveðja sem ég hef fengið og munaði minnstu að við félagarnir, ég og Skröggur dyttum í jólagírinn.
Það má eiginlega segja að þetta hafi verið Covid-jólahittingur hjá okkur Kristjáni.