Eurovision draumur Breta rætist á HúsavíkFréttatilkynning - - Lestrar 91
Breska hljómsveitin Remember Monday, sem keppir fyrir hönd Bretlands í Eurovision 2025, kemur til Húsavíkur á morgun til að taka upp sína eigin útgáfu af laginu Húsavík (My Hometown).
Í fréttatilkynningu segir að keppendum í Eurovision í ár hafi verið boðið að taka ábreiðu af lagi að eigin vali, sem svo verður birt á opinberum miðlum keppninnar. Remember Monday valdi lagið Húsavík og lýstu því sem sinni fyrstu ósk að fá að taka það upp á sjálfri Húsavík – með kórnum sem kom fram á Óskarsverðlaununum árið 2021.
Verkefnið er unnið af Film Húsavík og Castor Miðlun fyrir BBC. Leikstjóri er Rafnar Orri Gunnarsson, tökustjórn annast Elvar Örn Egilssona og framleiðandi er Örlygur Hnefill Örlygsson.
Upptakan mun fara fram um borð í bátnum Sylvíu í Húsavíkurhöfn.
DRAUMUR AÐ KOMA TIL HÚSAVÍKUR
„Það hefur lengi verið draumur okkar að heimsækja Húsavík,“ segja Lauren Byrne, Holly Hull og Charlotte Steele, meðlimir hljómsveitarinnar. „Síðan Eurovision-myndin kom út hefur okkur dreymt um að koma þangað – og nú hefur keppnin sjálf gefið okkur tækifæri til að láta þann draum rætast. Við erum í skýjunum yfir því að fá að syngja með þessum ótrúlega stúlknakór frá Húsavík.“