Eru að fiska vel fyrir austan

Aðalsteinn Júlíusson og hans menn á línubátnum Háey II hafa verið að gera það gott undanfarna daga en þeir róa nú frá Breiðdalsvík.

Eru að fiska vel fyrir austan
Almennt - - Lestrar 627

Aflaskipstjórinn Addi Júll.
Aflaskipstjórinn Addi Júll.

Aðalsteinn Júlíusson og hans menn á línubátnum Háey II hafa verið að gera það gott undanfarna daga en þeir róa nú frá Breiðdalsvík. Í síðustu fjórum sjóferðum hafa þeir fengið 43 tonn og þar af lönduðu þeir 17 tonnum í gær.

640.is heyrði í Adda í kvöld og sagði hann það hafa verið frekar brælusamt að undanförnu. „Það er róið í kaldadrullu, mikið suðaustanáttir og sunnan/suðvestan og þá er ekkert sérstak hérna, líka mikill straumur. Við höfum verið að róa núna síðustu þrjá róðar út í Djúpkant, sem er rétt norðan við Litladýpi, vestur af Rauðatorginu. Það eru rúmar 50 sjómílu út frá höfninni á Breiðdalsvík. Annars höfum við róið hérna út á Skrúðsgrunn og þar í kring“. Segir Addi en eins og áður segir landa þeir á Breiðdalsvík og aflanum er ekið hingað norður og unnin hjá GPG.

Addi segist bara vona að þeir fá sæmilegt veður á næstunni svo hægt sé að róa meira því það sé bullandi fiskur þarna úti sem og nær landi. „Það er almennt gott fiskirí hérna á bátunum, amk. hefði einhvern tímann þótt gott að fá fimm til sjö tonn á dag. Dögg frá Stöðvarfirði hefur þó fiskað sérstaklega vel, reyndar algjört mok á stundum enda settu þeir Íslandsmet á dögunum. Þá fengu þeir 23 tonn í einum róðri. Geturðu ímyndað þér 23 tonn á Cleópötru 38 ? Algjört mok“. Sagði Addi hress að lokum.

Af öðrum bátum GPG er að segja að línubáturinn Lágey hefur verið frá veiðum síðustu daga vegna bilunar og netabáturinn Jökull landaði um 40 tonnum af ufsa á Húsavík í dag.

 

 

Tengdar fréttir

  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744