03. jan
Elvar Bragason maður ársinsAlmennt - - Lestrar 213
Friðgeir Bergsteinsson stóð fyrir vali á Húsvíkingi/Þingeyingi ársins líkt og undanfarin ár og var valið kunngjört á Nýársdag.
Fyrir valinu varð Elvar Bragason.
Friðgeir ritar svo á Fésbókarsíðunni Húsavík fyrr og nú:
Elvar Bragason er Húsvíkingur/Þingeyingur ársins árið 2022. Elvar hefur síðastliðin ár farið fyrir starfi Tónasmiðjunnar sem er partur af samtökunum „Þú skiptir máli – forvarna- og fræðslustarf“.
Á heimasíðu Tónasmiðjunnar segir „Tónasmiðjan er skapandi starf fyrir ungt fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á tónlist, menningu og tómstundum, vinna saman í hóp, einstaklingsmiðað og skapa saman eitthvað lifandi og skemmtilegt. Jákvæðar forvarnir til framtíðar.“
Árið 2022 hélt Tónasmiðjan þrenna stórtónleika í Húsavíkurkirkju hvar ágoði miðasölu rann til góðgerðarmálefna. Á tónleikum Tónasmiðjunnar hafa tugir barna, ungmenna sem og fullorðinna stigið á stokk og verið partur af virku starfi samtakanna. Tónasmiðjan hefur smám saman fest sig í sessi sem eitt almetnaðarfyllsta tómstundastarf sem er að finna á Húsavík.
Elvar fær þar að launum Úlpu og snjóbuxur frá Icewear.
Til hamingju Elvar. Takk allir kærlega fyrir að senda mér ykkar tillögur og til hamingju allir hinir sem fengu atkvæði.
Sjáumst hress á árinu 2023!
Bestu kveðjur,
Friðgeir Bergsteinsson