Elísabet heiðruð af forsetanumAlmennt - - Lestrar 291
Síðastliðinn laugardag, 7. desember, afhenti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands verðlaun vegna Forvarnardagsins, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Elísabet Ingvarsdóttir nemandi Framhaldsskólans á Húsavík hlaut verðlaun í flokki verkefna hjá framhaldsskólum. Frá þessu segir á vef FSH en Elísabet kynnti forvarnarverkefnið sitt fyrir forseta lýðveldisins og öðrum viðstöddum á Bessastöðum.
Forvarnardagurinn var haldinn í nítjánda skiptið, 2. október síðastliðinn, í grunn og framhaldsskólum landsins. Þar ræddu nemendur um nýjustu niðurstöður rannsókna fyrir þeirra aldurshóp og hugmyndir að samveru, íþrótta- og tímstundastarfi og áhrif þessa þátta á þeirra líf. Nemendur í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla gátu svo tekið þátt í verkefni þar sem þemað var leikir sem stuðla að samveru fjölskyldunnar og vina. Elísabet útfærði mjög fallegt hugtakakort í tengslum við fjölskylduleiki og hlaut verðlaun fyrir.
Elísabet Ingvarsdóttir ásamt Höllu Tómasdóttir forseta og Karolínu Kr. Gunnlaugsdóttir kennara sínum.