D-listinn og umhverfismálAðsent efni - - Lestrar 376
Síðustu fjögur árin hafa umhverfismál verið áberandi í umræðunni, ekki aðeins hér í Norðurþingi heldur landinu öllu. Hefur þar oftar en ekki verið tekist á um markmið og áætlanir ýmissa stjórnmálaflokka í þeim málum þar sem vinstri vængurinn er af sumum talinn málsvari umhverfisins, jafnvel hinn eini sanni, en hægri vængurinn gjarnan sem málsvari framkvæmda, þá helst virkjana og stóriðju. Sumir hafa gengið svo langt að telja fólk sem aðhyllist sjálfstæðisstefnu geti á engan hátt unnið að umhverfismálum með hagsmuni náttúrunnar að leiðarljósi. Síðast þegar ég athugaði þá var manneskjan talin hluti af lífríki jarðarinnar og þar með hluti af því umhverfi sem hún er í hverju sinni. Um það er í sjálfu sér ekki deilt heldur frekar hversu mikil áhrif manneskjan hefur á umhverfi sitt og ekki síður hversu mikil þau áhrif eigi að vera.
Í umræðunni um umhverfismál og þá helst umhverfisvernd er oft vísað til sjálfbærrar þróunar og þá gjarnan án þess að útskýra hvað átt sé við og hvað felist í slíkri þróun. Samkvæmt skilgreiningu í riti Umhverfisráðuneytisins „Velferð til framtíðar“ frá árinu 2002 er hugtakinu lýst á eftirfarandi hátt: „Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Sjálfbær þróun hefur þrjár meginstoðir: efnahagsvöxt, félagslega velferð og jöfnuð og vernd umhverfisins. Skoða verður þessa þrjá þætti í samhengi og leitast við að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið.”
Það sem snýr að okkur hér í Norðurþingi og nálægum sveitarfélögum er að samfélagsgerðin hefur breyst talsvert á síðustu árum, fyrst og fremst vegna efnahagslegra breytinga. Fyrirtæki hafa ýmist flutt eða lagst af og grunnstoðir samfélagsins hafa tekið stakkaskiptum. Þetta hefur haft veruleg áhrif á félagslega velferð íbúa þar sem fjölbreytni atvinnulífs minnkar, atvinnutækifærum fækkar og aldurssamsetning samfélagsins breytist þegar ungt fólk flyst í önnur samfélög sem eru betur stödd efnahagslega og félagslega. Því má segja að veruleg skekkja sé komin í þessar þrjár meginstoðir sjálfbærrar þróunar á okkar svæði og því nauðsynlegt að rétta þær við og styrkja, þ.e. ef við ætlum okkur að í það minnsta að viðhalda þokkalega sjálfbæru samfélagi næstu áratugina.
Krafa okkar um orkunýtingu úr Þingeyjarsýslum í heimahéraði er ekki byggð á tálsýn um skjótfenginn gróða eða af vanvirðingu við náttúru okkar. Hún er einfaldlega knúin af nauðsyn en þó að vel athuguðu máli eins og hefur verið haft í hávegum við matsvinnu á umhverfisáhrifum allra framkvæmda. Hér hefur verið gengið hreint til verks og allt haft upp á borðum, jafnvel þó borðunum hafi ýmist verið fjölgað eða jafnvel fjarlægð þegar þannig liggur á. Nú liggur fyrir, og hefur reyndar gert um langan tíma, að það eru engar biðraðir af fyrirtækjum sem vilja og geta nýtt orkuna hér í Þingeyjarsýslum. Fyrirtækin sem helst koma til greina eru tvö og starfa bæði á sviði áliðnaðar. Við, íbúar í Norðurþingi, verðum að gera upp við okkur hvort og þá til hvers við viljum nýta orkuna, verður það til að styrkja sjálfbæra þróun svæðisins eða til að styrkja sömu þróun í öðrum landshlutum. Vilji okkar á D-lista er skýr, við viljum sjálfbæra þróun hér !
Hafsteinn H. Gunnarsson skipar 4. sæti á D-lista