Christin Schröder ráðin forstöðumaður HúsavíkurstofuAlmennt - - Lestrar 509
Christin Irma Schröder hefur verið ráðin forstöðumaður Húsavíkurstofu.
Hún mun hefja störf þann 15. janúar. Christin er þrítug að aldri og hefur undanfarið ár starfað hjá PriceWaterhouse Coopers en var áður í starfi aðstoðarmanns framkvæmdastjóra hjá PCC Bakki Silicon. Hún er með MS próf í fjölþjóðasamskiptum en lauk þar áður BA prófi í evrópufræðum. Christin er þýsk en hefur verið búsett á Húsavík í nokkur ár.
Um er að ræða nýtt starf sem er fjármagnað meðal annars með rekstarstyrk frá Norðurþingi. Húsavíkurstofa var stofnuð árið 2002, þá undir heitinu Markaðsráð Húsavíkur og nágrennis. Núverandi nafngift var tekin upp árið 2010. Húsavíkurstofa er samnefnari fyrirtækja í ferðaþjónustu í auglýsinga- og kynningarmálum. Stofan hefur í gegnum tíðina unnið ýmis verkefni og var á sínum tíma meðal annars rekstraraðili Mærudaga, upplýsingamiðstöðvarinnar á Húsavík sem og tjaldsvæðisins. Stjórn Húsavíkustofu sagði sig frá öllum rekstri árið 2016 og síðan þá hefur farið fram þarfagreining á verkefnum þeim sem slíkt félag ætti að standa undir.
Á síðustu árum hefur ferðaþjónusta vaxið gríðarlega sem atvinnugrein á Íslandi og gæði aukist samhliða því. Dvalartími ferðamanna hefur hinsvegar styst og því minni prósenta ferðamanna sem sækir út á land. Samkeppni hefur aldrei verið meiri og hafa ýmis sveitarfélög í samstarfi við ferðaþjónustusamtök blásið til sóknar í áfangastaðamarkaðssetningu. Norðurþing bætist nú í hóp þeirra sveitarfélaga og mun samstarfið við Húsavíkurstofu meðal annars fela í sér samræmingu á upplýsingagjöf til ferðamanna og umsjón með markaðssetningu hafna Norðurþings með tilliti til skemmtiferðaskipa.
Í tilkynningu býður stjórn Húsavíkurstofu Christinu velkomna til starfa.