Búsetakerfi Norðurþings - Grein um húsnæðismál

Þeir eru ekki margir sem halda því fram fyrirkomulag á fasteignamarkaði á Íslandi sé fullkomið. Okkar ástsæla verðtrygging er efni í heila grein. En það

Búsetakerfi Norðurþings - Grein um húsnæðismál
Aðsent efni - - Lestrar 1047

Kjartan Páll Þórarinsson.
Kjartan Páll Þórarinsson.

Þeir eru ekki margir sem halda því fram fyrirkomulag á fasteigna-markaði á Íslandi sé fullkomið. Okkar ástsæla verðtrygging er efni í heila grein.  En það er líka hægt að afgreiða hana í einu orði = rugl.

Óverðtryggð húsnæðislán eru líka efni í aðra grein, en hér á Íslandi eru þau best í heimi. Reyndar best í heimi fyrir bankana sem eru með milljarða króna í áskrift frá almenningi með vöxtum sem eru evrópumet í það minnsta. Leigumarkaðurinn á Íslandi enn eitt atriðið sem hægt er að taka fyrir.

Á höfuðborgarsvæðinu er mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði og leiguverð þar af leiðandi hátt. Nýleg grein í ónefndu blaði segir að um 70% leigjanda nái ekki endum saman.Varla geta þeir þá lagt til hliðar og  safnað fyrir útborgun á íbúð ef endar ná ekki saman ?  Eignir hafa því safnast saman á færri hendur og auka þannig á misskiptingu auðs. Víða á landsbyggðinni er staðan oft enn önnur.  Þar er fasteignaverð oft undir byggingarkostnaði. Lítið framboð er af leiguhúsnæði og þá sérstaklega minni íbúðum.

Staðan á Húsavík er ekki ólík því sem hér var lýst síðast. Meðalverð á fermeter er mælieining sem oft er notuð,  en getur þó verið villandi til samanburðar. Verð bilið sem eignir seljast á getur verið býsna breitt og má t.d. sjá,  að miðað við fasteignavef mbl.is,  eru fæstir sem setja verðmiða á eignir á Húsavík þegar þær eru settar á sölu. Engu að síður verður meðalverð á fermeter notað hér til viðmiðunar. Meðalverð á Húsavík er 104 þúsund krónur miðað við 26 seldar eignir á síðasta ári.[1] Byggingarverð á meðal einbýlishúsi er í dag rúmlega 300 þúsund krónur fermeterinn.[2]  Því er augjóst að það ber töluvert þarna á milli.

Nú má reikna með því að ákveðið uppvaxtarskeið sé í vændum á Húsavík. Gert er ráð fyrir íbúafjölgun hér á næstu árum. Einhverstaðar þarf fólk að búa og það er má reikna með að einhver ný íbúðarhús muni rísa enda hefur sveitarfélagið gert ráð fyrir því í sínum áformum og skipulagi.

 Takmarkað framboð er á minni íbúðum á Húsavík á meðan eftirspurnin er mikil og á væntanlega eftir að fara vaxandi.  Sveitarfélagið á nú um 50-60 íbúðir/eignir í útleigu. Eignirnar eru flestar í leigu á almennum markaði en eru í misjöfnu ástandi.  Ákveðin viðhaldsþörf kominn á drjúgan hluta þeirra. Því má sannarlega færa rök fyrir því að núverandi fyrirkomulag gangi ekki til frambúðar. En hvaða leið er þá best að fara ?

Hin íslenska leið hefur fyrst og fremst boðið uppá tvo kosti á húsnæðismarkaði, að eiga eða leigja. Nokkrar búsetaíbúðir eru reyndar til staðar en þær eru ekki margar.

Núverandi meirihluti hefur það að markmiði að fækka í eignasafni sínu með eignarsölu. Það hefur færst í aukana að eignir í fjölbýlum séu keyptar og leigðar út í skammtímaleigu í ferðaþjónustu. Fólk sem  vill hér búa að staðaldri þarf frá að hverfa, vegna þess að það finnur ekki íbúð. Það er ekki svo að ég sé á móti ferðaþjónustu, en þarna hljóta menn að heyra viðvörunarbjöllur klingja.

Niðurlag mitt efir þessa stuttu (og einfölduðu) yfirferð á húsnæðismarkaðinum á Íslandi og á  Húsavík hefur leitt mig á eftirfarandi hugmynd sem ég hef þegar lagt fram í framkvæmda – og hafnanefnd Norðurþings, og talað fyrir í bæjarstjórn.

Mín tillaga er að sveitarfélagið hætti allri sölu íbúða á Húsavík frá og með deginum í dag. Því næst verði kannaðir möguleikar á því að stofna búsetufélag. Félagið gæti verið rekið af Norðurþingi eða í samvinnu við annan aðila sem kæmi inn með fjármagn. Búsetugjald er þá innheimt af íbúum við undirritun samnings. Íbúar skrifa þá uppá leigusamning til lágmark 1 árs og etv mætti vera hámarkstími líka. Þannig heldur sveitarfélagið í eignir sínar sem nú eru verðlitlar enda markaðsverð í lægra lagi og er væntanlega að fara uppá við. Þannig tryggir sveitarfélagið að það á nægjanlegt magn íbúða til að taka á móti nýjum íbúum og veitir einnig svigrúm fyrir núverandi íbúa að flytja sig úr stærri eignum í þær minni. Sveitarfélög eiga ekki að horfa fram hjá því félagslega hlutverki sem þau hafa varðandi leigumarkað. Varla getur það verið eftirsóknarvert að fara í sama kerfi og er í stærri byggðarkjörnum landsins, en það er kerfi sem flestir eru sammála um að sé ekki gott. Há leiga eða lán á okurvöxtum.  Sú útsskýring að það sé ekki hlutverk sveitarfélaga að bjóða uppá íbúðir er eitthvað sem ég er ekki tilbúin að skrifa uppá. Ríkisvaldið, fjármálastofnanir og allir stjórnmálaflokkar hafa ekki náð að taka húsnæðismál Íslendinga á markvissan hátt. Ef til vill er ein leið að sveitarfélög eigi íbúðir í félagi sem ekki er drifið áfram af botnlausri gróðahvöt.

Sveitarfélagið Norðurþing er nú í kjörstöðu til að bjóða uppá aðra leið í þessum efnum. Endurhugsum húsnæðiskerfið okkar og þar getur sveitarfélagið spilað lykilhlutverk! Sala eigna núna gerir ekkert nema laga ársreikning eins árs og leysir engan vanda til lengri tíma. Af hverju ekki að leyfa sér að hugsa stærra og komast af því hvernig tilfinning það er að finna upp hjólið!

Kjartan Páll Þórarinsson bæjarfulltrúi.



[1] tölur fegnar frá datamarket.com , tölur frá Þjóðskrá Íslands.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744