Brúskettur, humar og súkkulaðisælaSötrað & snætt í sælunni - - Lestrar 837
Í tilefni 2ja ára afmælis 640.is ætlum við að byrja hér með nýjan matardálk í dag og mun ég, Olga Hrund Hreiðarsdóttir, sjá um hann. Mér finnst mjög gaman að elda og enn skemmtilegra að borða og ætla ég að leyfa ykkur að fylgjast með mér og mínum við þá iðju. Þá hef ég gaman að því ferðast og mun það einnig fléttast inn í þetta í máli og myndum.
Fyrsta matarboðið sem hér verður sagt frá var haldið síðastliðið laugardagskvöld í tilefni afmælis 640.is og verð ég að segja að það heppnaðist sérdeilis vel og vonandi munu einhverjir nýta sér þessar uppskriftir. Þeir sem í þetta matarboð komu voru Haffi bróðir, Ella mágkona, mamma, pabbi, Anna Heba systir og ég auk tveggja lítilla frænkna.
Í forrétt var boðið upp á brúskettur en þær lærði ég að gera þegar ég bjó í Róm um árið og eru þær uppáhalds forrétturinn minn. Það er mjög einfalt að gera þær og einnig mjög hentugt því maður getur undirbúið þær fyrr um daginn ef það hentar manni betur – aðalmálið er að vera með ferskt og gott hráefni og gott brauð.
Brúskettur fyrir c.a. 6-8 manns
Gott brauð – t.d. veronabrauð eða tómatbrauð
Ég sker tómatana smátt niður en tek hvítlauksgeirana bara í tvennt því ég vil helst sleppa því að borða hvítlaukinn en það má að sjálfsögðu saxa hann smátt ef fólk vill það frekar. Svo helli ég góðri ólífuolíu yfir þetta, krydda með salti og pipar og að lokum ríf ég ferska basiliku út í – hræri öllu saman og smakka til. Þetta geymi ég svo inni í ísskáp á meðan ég grilla brauðið í ofni með smá ólífuolíu ofan á. Þetta er svo borið á borð í sitthvoru lagi og fólk fær sér sjálft - þá getur hver og einn fengið sér eins mikið og hann lystir.
Í aðalrétt var grillaður humar í hvítlaukssmjöri með brauði og kletta- og mangósalati. Þessi uppskrift er ekki beint upp úr bók heldur hefur bara svona þróast með mér en auðvitað eru til margar uppskriftir að þessum rétti.
2 kg humar
4 hvítlauksgeirar
200 gr smjör
Steinselja
1 sítróna
1 lime
Ég hreinsa humarinn þannig að ég klippi skelina, tek svo görnina úr og set kjötið ofan á skelina – og raða svo humrinum ofan á álpappír í ofnskúffu.
Á meðan humarinn er að grillast bræði ég aftur 100 grömm af smjöri í sama potti og áðan og get því notað hvítlaukinn sem eftir er í pottinum. Þetta smjör set ég í skál á borðið og þá getur fólk fengið sér meira smjör ef það vill – t.d. mjög gott að setja það ofan á brauðið. Í þetta skiptið var ég með Veronabrauð og mér finnst það passa mjög vel með þessum rétti. Ég sker það niður í sneiðar, raða þeim á ofnplötu og grilla það í ofninum um leið og humarinn.
Þar sem humarinn er svo rosalega góður finnst mér best að hafa bara mjög einfalt salat með honum og í þetta skiptið var það klettasalat, mangó og smá ólífuolía – en það má auðvitað hafa hvaða salat sem er.
“Cholotate brownie cupcakes”
125 gr suðusúkkulaði
125 gr smjör (þeir segja ósaltað en ég hafði saltað)
2 egg
300 gr sykur (held að það megi alveg minnka þetta eitthvað)
1 tsk vanilludropar
115 gr hveiti
Ég gerði deigið bara heima um daginn og tók það svo með mér í skál til Haffa og Ellu.
Ég byrjaði á því að bræða súkkulaðið og
smjörið í örbylgjuofni í tvær mínútur – en í bókinni er talað um að gera það í skál yfir
sjóðandi vatni. Síðan setti ég eggin, sykurinn og vanilludropana í hrærivél og hrærði þangað til þetta var orðið
ljóst og þykkt. Þá bætti ég súkkulaðinu og smjörinu út í og svo að lokum hveitinu og hrærði þangað til
þetta var allt vel blandað og fallegt. Í uppskriftinni er talað um 12 pappírs form en ég notaði leirskálar sem mega fara inn í ofn og gerði
fyrir sex. Það á að hita ofninn í 160 gráður og baka í 25 mínútur samkvæmt bókinni.
Vonandi hafið þið haft gaman af og verði ykkur að góðu.
Kveðja, Olga Hrund.