Baráttan fyrir vinnu og velferð. „Verkefnin og staða mála“Aðsent efni - - Lestrar 716
Fá mál, ef nokkur, hafa verið jafn mikið í brennidepli og atvinnumál á undaförnum árum og áratugum. Eðli málsins samkvæmt hefur þessi umræða farið fram um allt land og sérstaklega í hinum dreifðu byggðum landsins.
Örar tæknibreytingar í landbúnaði og sjávarútvegi hafa leitt til fækkunar starfa. Þessar atvinnugreinar hafa í gegnum árin verið grunnstoð landsbyggðarinnar og byggt upp þá velferð sem þar er að finna. Undanfarin ár hefur þjónusta á vegum ríkisins dregist saman. Niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, sýslumannsembættinu og öðrum ríkisreknum stofnunum hefur leitt af sér fækkun atvinnutækifæra og veikt stuðningsnet svæðisins. Hinar dreifðu byggðir eiga nú í vök að verjast vegna fólksfækkunar og tekjusamdráttar sem gerir sveitarfélögum á landsbyggðinni erfiðara að tryggja þá velferðarþjónustu sem nauðsynleg er hverju samfélagi.
Stefna Norðurþings
Eins og flestum er kunnugt er það ekki einfalt mál að sporna við þeirri þróun sem verið hefur í Þingeyjarsýslu sem og víðar. Í jafn mikilvægu og viðamiklu máli og um ræðir er grundvallaratriði að hafa heildarsýn yfir öll möguleg tækifæri og einbeita sér að þeim markmiðum sem raunhæft er að hrinda í framkvæmd, samfélaginu til framdráttar.
Styrkleikar okkar héraðs eru margir. Fyrir það fyrsta höfum við grunnstoðir í landbúnaði og sjávarútvegi, stórkostlega náttúru sem án efa er mikið aðdráttarafl fyrir starfsemi tengdri ferðaþjónustu, hér er einnig að finna mikla orku í iðrum jarðar sem unnið hefur verið að því að beisla. Að auki höfum við verslun, iðnfyrirtæki og opinbera þjónustu sem og öflugt stoðkerfi í okkar samfélagi. Ef við náum að virkja alla þá þætti sem hér hafa verið nefndir er ljóst að hægt verður að skapa samfélag með mörgum stoðum og fjölbreytileika sem m.a. mun auðvelda ungu fólki að velja sér starfsvettvang við hæfi.
Samfélagið okkar hvílir á fjórum meginstoðum sem þarf að treysta og styrkja með öllum tiltækum ráðum. Styrkar stoðir skapa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri og aukna þörf fyrir þjónustu, bæði í einkageiranum og hjá opinberum aðilum. Landbúnaður og sjávarútvegur hafa í gegnum tíðina verið grunnstoðir okkar og undanfarin ár hefur ferðaþjónustan stöðugt sótt í sig veðrið sem ein lykilatvinnugreina. Þá liggja sóknarfæri í uppbyggingu á orkufrekum iðnaði sem gæti skapað, ef rétt er haldið á málum, hundruð starfa á næstu árum.
Þessu er lýst á meðfylgjandi mynd.
Til að þessar hugmyndir geti orðið að veruleika er mikilvægt að allir leggist á eitt og stefni að sama markmiði. Mikil og góð samvinna hefir verið á milli Norðurþings og nágrannasveitarfélaga um nýtingu tækifæra og eflingu svæðisins. En það dugar ekki alltaf til því stærri verkefni þarfnast víðtækari stuðnings, frá íbúum, sveitarfélögum og síðast en ekki síst ríkisvaldinu.
Spennandi verkefni í farvatninu
Til að viðhalda þeim stoðum sem þegar eru til staðar, og ekki síður til að skapa tækifæri til sóknar í ferðaþjónustu og orkufrekum iðnaði, er mikilvægt að fá ríkið til samvinnu um uppbyggingu og viðhald nauðsynlegra innviða. Undanfarið hefur verið unnið náið með Siglingastofnun, Vegagerðinni og fulltrúum innanríkis-, fjármála- og iðnaðarráðuneytis að undirbúningi uppbyggingar á Bakka. Sú vinna hefur skilað árangri og á dögunum funduðu fulltrúar Norðurþings með ráðherranefnd um atvinnumál til að ræða uppbyggingu innviða í tengslum við orkufrekan iðnað.
Stóriðja
Fjölmörg spennandi verkefni eru í farvatninu. Í orkufrekum iðnaði má nefna að tvö fyrirtæki hyggja á kísilmálmframleiðslu á Bakka sem myndu skapa 230-280 bein störf auk afleiddra starfa. Þýska fyrirtækið PCC vinnur nú að jarðfræðirannsóknum á Bakka auk þess sem hafin er vinna við hönnun verksmiðju sem reist yrði í tveimur áföngum. Fullbúin myndi verksmiðjan framleiða 66.000 tonn af kísilmálmi árlega og skapa í kringum 120-150 varanleg störf. Annað fyrirtæki sem einnig hyggur á uppbyggingu á Bakka er Thorsil sem stefnir á 52.500 tonna framleiðslu kísilmálms með 110-130 starfsmenn. Thorsil mun á næstu vikum kynna drög að matsáætlun um umhverfismat. Starfsemi þessara fyrirtækja kallar á mikla aðkeypta þjónustu og einnig verulega aukin umsvif hafnarinnar og annarra stofnana sveitarfélagsins.
Ferðaþjónusta
Í ferðaþjónustu eru fjölmörg verkefni í vinnslu, bæði stór og smá. Verkefnið sem hæst hefur borið að undanförnu í fjölmiðlum eru áform Huang Nubo um uppbyggingu hótels á Grímsstöðum á Fjöllum. Atvinnuþróunarfélög Þingeyinga og Eyjafjarðar vinna að framgangi málsins fyrir hönd sveitarfélaganna. Þessar áætlanir fela ekki í sér neina fjárhagslega áhættu af hálfu Norðurþings, heldur þvert á móti mikinn ávinning sem mun fylgja uppbyggingu mannvirkja, fjölgun starfa og aukinni umferð ferðafólks um Norðausturland allt árið um kring. Auk þess yrði meginhluti jarðarinnar skilgreindur sem fólkvangur sem þýðir aukinn rétt almennings til að njóta landsins. Annað spennandi verkefni í ferðaþjónustu grundvallast á nýtingu heita vatnsins á Húsavíkurhöfða. Byggður yrði baðstaður ásamt heilsuhóteli á höfðanum með útsýni yfir Skjálfandann sem opið yrði árið um kring. Að því verkefni standa m.a. aðilar í ferðaþjónustu sem hafa reynslu og þekkingu til að láta verkefni sem þetta verða að veruleika.
Húsavíkurhöfn
Ljóst er að gangi þessar áætlanir eftir er nauðsynlegt að byggja upp og efla innviði sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslu. Stóru framkvæmdirnar eru uppbygging Húsavíkurhafnar og vegtenging við iðnaðarsvæðið, en af hálfu sveitarfélagsins Norðurþings hefur verið lögð rík áhersla á að hefja þær framkvæmdir sem fyrst. Við fyrsta áfanga hafnarinnar er áætlað að lengja Bökugarð úr 130 metrum í 220 metra auk uppfyllingar og frágangs á þjónustusvæði við hafnarsvæðið.
Varðandi vegtengingu er verið að skoða stutt göng í gegnum Húsavíkurhöfðann sem yrðu um 1.040 metra löng.
Hafnarframkvæmdum og vegagerð þarf að vera lokið um leið og framleiðsla hefst á Bakka. Þessu til viðbótar þarf að ráðast í uppbyggingu á vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og öðrum þáttum sem nauðsynlegir eru þegar íbúum fjölgar, má þar nefna uppbyggingu leikskóla. Aðrar stofnanir sveitarfélagsins búa yfir töluverðri umframgetu og geta bætt við sig verkefnum án þess að veruleg uppbygging mannvirkja þurfi að koma til.
Fjölbreyttari atvinnumöguleikar
Verði þessi verkefni öll að veruleika er talið að störfum á svæðinu, bæði beinum og óbeinum, fjölgi um átta hundruð á nokkurra ára tímabili. Hér er verið að tala um varanleg störf, mikla verðmætasköpun og aukna fjölbreytni í atvinnulífi sem gefa mun einstaklingum með menntun og reynslu kost á að nýta sína krafta í héraði.
Það leikur enginn vafi á því að framangreind verkefni munu hafa veruleg áhrif á tekjustofna og hag sveitarfélagsins og auka getu þess til að bæta þjónustu við íbúa þess og styrkja það félagslega öryggisnet sem samfélaginu er nauðsynlegt.
Langtímaverkefni
Sú stefna, sem hér hefur verið greint frá, byggir á þeim auðlindum sem eru til staðar á svæðinu og hvernig við getum nýtt þær íbúunum til framdráttar. Um er að ræða langtímaverkefni þar sem leitað hefur verið eftir fjárfestingum með tilheyrandi atvinnusköpun í ferðaþjónustu og orkufrekum iðnaði. Sem stendur eru verkefnin ekki í hendi en þau ganga vel. Norðurþing hefur hafið samningaviðræður um lóðaleigu, hafnasamninga og aðra þjónustusamninga sem fylgja uppbyggingunni. Að auki er verið að semja við ríkisvaldið um aðkomu þess að uppbyggingu innviða. Nokkur erfið skref eru eftir, en ef allt gengur samkvæmt áætlun má reikna með að framkvæmdir hefjist við höfn, vegtengingu og verksmiðju á Bakka á næsta ári. Stefnt er að því að samningum verði að mestu lokið í desember 2012. Lykilatriðið er að við sem hér búum stöndum saman og leggjumst öll á árarnar. Þegar upp er staðið snýst barátta okkar um að veita komandi kynslóðum góða, viðvarandi og örugga þjónustu auk tryggrar atvinnu og þeim stöðugleika sem henni fylgir.
Virðingarfyllst,
Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings.
Snæbjörn Sigurðarson, verkefnisstjóri orkufreks iðnaðar.