Aumingja ferðaþjónustan !Aðsent efni - - Lestrar 398
Við lestur greinar framkvæmdastjóra Markaðssstofu Norðurlands koma tár í augun. Við eigum svo bágt.
En samt hefur mitt fyrirtæki, til dæmis, verið aðili að fimm samtökum tengdum ferðaþjónustu sem öll hafa þóst verið að byggja upp og tryggja framtíð atvinnugreinarinnar. Greinilega með engum árangri.
Fyrirtækin eru upp til hópa ofurskuldsett, á stanslausu kennitöluflakki, sífellt að leita uppi styrki og opinberan stuðning, glíma við taprekstur og kvartanir óánægðra viðskiptavina. Auðvitað eru undantekningar. Það sem stendur þó uppúr er það, að vælið lætur ekki á sér standa. Nær væri öllum þessum fyrirbærum með tugi starfsmanna á sínum snærum að manna sig uppí að koma með lausnir til viðspyrnu.
Hvernig dettur reynslumiklum aðilum í hug að ferðalög 150.000 íslendinga komi í stað innkomu frá 2 milljónum erlendra gesta ? Og þessir landar okkar sem eru nýbúnir að kaupa upp allan lager heitra potta landsins. Svo ekki sé minnst á húsbíla eða ferðvagna, sem hvergi liggja nú á lausu. Annar hver á sumarbústað. Að stór hluti þessa fólks leggi land undir fót, til að gista gegn greiðslu út um allt land, væri undarlegt. Auk þess eru undirboð og mútur orðin svo umfangsmikil t.d í gistiþjónustu að ekkert liggur eftir handan við hornið, nema næsta kennitala.
Ég er orðinn vanur, að í raun bjargi enginn neinum hér, nema græða vel á því eða geti tryggt sér feit laun. Því reyni ég að bjarga mér sjálfur og hef ákveðið að hætta þátttöku í öllum þessum tilgangslausu fyrirbærum, sem geta ekkert gert nema vælt.
Sigurjón Benediktsson, eigandi Kaldbakskota við Húsavík