Andrea Fáfnis Ólafs og Viðar Breiðfjörð sýna í Hlyn á MærudögumAlmennt - - Lestrar 180
Listamennirnir segja listsköpunina vekja með þeim mikla hamingju, gleði, innri kyrrð og sálarró sem þau leitast við að miðla áfram á strigann og vonast til að skili sér áfram til þeirra sem á horfa. Viðfangsefni sýningarinnar eru úr ýmsum áttum. Þar má sjá geometrísk verk Andreu með tilvísunum í tónlist, mannlífið og innri hugarheima ásamt jarðbundnum verkum Viðars af náttúru og mannfólki sem þau vonast til að fái að prýða Húsvísk heimili eftir sýninguna.
Það er gaman að segja frá því að Andrea seldi nýlega sitt allra stærsta verk og sendir með því Friðarsúluna á flakk út í heim, þar sem verkið kemur til með að hanga í anddyri hótels í Asíu. Hún málaði verkið Friðarljós til styrktar byggingu nýs Kvennaathvarfs. Verkið er eins konar kosmískt ferðalag til friðar, þar sem forn-súmerskar fleygrúnir stafa orðið F R I Ð A R L J Ó S.