Ályktun læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga

Læknaráð Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (HÞ) gerir sér fulla grein fyrir þeim fjárhagsvanda sem ríkisstjórn Íslands stendur frammi fyrir.  Af því sögðu

Ályktun læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga
Aðsent efni - - Lestrar 711

Læknaráð Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga (HÞ) gerir sér fulla grein fyrir þeim fjárhagsvanda sem ríkisstjórn Íslands stendur frammi fyrir.  Af því sögðu lýsir læknaráðið yfir megnri vanþóknun sinni á, með hvaða hætti ríkisstjórnin nálgast “sparnað” í heilbrigðismálum og lýsir fullri ábyrgð á hendur henni komi fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 óbreytt til framkvæmda.

 

Ljóst er að boðaður niðurskurður mun jafngilda því að sjúkrasvið Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga verði lagt niður í heild sinni. Þjónustuna er ekki að fá annars staðar á upptökusvæði HÞ.

 

Læknaráðið hvorki sér fyrir sér, né finnur í aðsendum gögnum stjórnvalda, rök fyrir því að:

  • sú þjónusta sem veitt er á HÞ sé ódýrari eða möguleg annars staðar
  • Sjúkrahúsið á Akureyri geti annast þann sjúklingahóp sem annars hefur verið sendur þaðan til umönnunnar og endurhæfingar hér eftir aðgerðir og slys
  • Sjúkrahúsið á Akureyri hafi bolmagn til að sinna verulegri fjölgun innlagna frá upptökusvæði HÞ og öðrum stöðum á Norðurlandi

Sem fagaðilar sjáum við ekki hvernig HÞ muni geta veitt íbúum svæðisins þá þjónustu sem kveðið er á um í lögum.  Breytingar vegna þess niðurskurðar sem boðaður er í fjárlagafrumvarpi fyrir 2011 mun valda gríðalegum kostnaði, tímatapi, vinnutapi og fyrirhöfn sem sjúklingar og aðstandendur þeirra verða fyrir með því að þurfa að sækja alla sérfræði- og sjúkrahúsþjónustu til Akureyrar.

Auk þess bendir læknaráð HÞ á eftirfarandi:

  • Fjárlagafrumvarp 2011 gerir ekki ráð fyrir fjarlægðum innan svæðisins.
  • Illa hefur gengið að manna stöður heilsugæslulækna á svæðinu undanfarin ár og nú þegar eru ómannaðar stöður á svæðinu. Öruggt er að boðaður niðurskurður á sjúkrasviði muni ekki bæta ástandið. Ráðuneytið virðist ekki hafa gert ráð fyrir því að 50% heilsugæslulækna á landsbyggðinni munu hverfa úr vinnu innan 4ra ára vegna aldurs.
  • Afkáralegt má telja að í tillögum ráðuneytisins sé gert ráð fyrir sértekjum af þjónustu sem lögð verður niður.

Virðingarfyllst

Unnsteinn Júlíusson

Formaður læknaráðs Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744