Ályktun frá Samfylkingunni í ÞingeyjarsýsluAðsent efni - - Lestrar 514
Samfylkingin telur gróflega vegið að tilvist Þingeyinga og búsetuskilyrðum í Þingeyjarsýslu við gerð fjárlaga fyrir árið 2011. Á undanförnum áratug höfum við þurft að búa við mikla fólksfækkun og missi atvinnutækifæra í héraði. Til marks um það hefur börnum á grunnskólaaldri fækkað verulega á einum áratug. Með þessum hugmyndum um niðurskurð má því gera ráð fyrir enn frekari hruni og fólksfækkun á þessu svæði. Því mótmælum við skilyrðislaust.
Konur missa vinnuna.
Við mótmælum harðlega þeirri svívirðilegu aðför að Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sem ætlað er að skera niður um 40% í rekstri sínum. Ljóst er að stofnunin mun þurfa að taka á sig um 10% heildar-niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu á næsta ári þrátt fyrir að íbúafjöldi á svæðinu sé um 1,5% af heildarfjöld landsmanna. Á undanförnum árum hefur stofnunin þurft að skera mikið niður, en hún hefur verið rekin án halla undanfarin tvö ár. Gera má ráð fyrir að boðaður niðurskurður feli í sér uppsagnir 60 -70 starfsmanna sem þýðir veruleg margfeldisáhrifa um allt hérað. Mörgum þessara starfa sinna konur sem eiga ekki greiðan aðgang að öðrum störfum á svæðinu og munu því að öllum líkindum þurfa að flytja búferlum ásamt fjölskyldum sínum. Þetta getur varla talist kynjuð fjárlagagerð.
Grunnstoðir samfélagsins eru brotnar niður.
Við Þingeyingar höfum á undanförnum árum reynt af besta mætti og eftir bestu vitund að byggja upp atvinnulíf á svæðinu bæði tengt ferðaþjónustu og stóriðju en mætt litlum stuðningi stjórnvalda. Iðnaðarráðherra í núverandi ríkisstjórn hefur talað um uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum og fjármálaráðherra hefur sömuleiðis talað fyrir slíkri uppbyggingu í stað stóriðjuuppbyggingar. Við Samfylkingarfólk í Þingeyjarsýslu fáum ekki séð að 85% niðurskurður á sjúkrasviði heilbrigðisstofnunarinnar geti talist verulegur stuðningur við þess konar uppbyggingu.
Velferðarkerfinu er rústað.
Með þessari aðgerð er vegið að innviðum samfélags okkar með offorsi sem ekki getur talist til norrænnar velferðarstjórnar. Öll heilbrigðisþjónusta Þingeyinga er hér með færð marga áratugi aftur í tímann.
Við skorum á þingmenn kjördæmisins,fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra að endurskoða þessar alvarlegu hugmyndir um þennan væntanlega niðurskurð.