Aldey Traustadóttir nýr forseti sveitarstjórnar NorðurþingsAlmennt - - Lestrar 280
Aldey Traustadóttir er nýr forseti sveitarstjórnar Norðurþings en sex fulltrúar á V-lista Vinstri grænna og óháðra óskuðu lausnar frá störfum á sveitarstjórnarfundi hinn 24. ágúst síðastliðinn.
Aldey var í níunda sæti á lista framboðsins þegar gengið var til kosninga 2018.
Í frétt á Vísi.is segir Kolbrún Ada Gunnarsdóttir fráfarandi forseti sveitarstjórnar að hún væri nýtekin við störfum sem skólastjóri, sem gerði hana mögulega vanhæfa til að sitja áfram.
Hvað aðra varðaði sagði hún ekki um að ræða pólitískan ágreining eða eitthvað vafasamt; allir hefðu haft sínar persónulegu ástæður og þá ætti listinn aðeins einn fulltrúa í bæjarstjórn og starfið því töluvert umfangsmikið.
„Fólk er bara í mismunandi persónulegum aðstæðum og getur ekki tekið þetta verkefnið að sér og sinnt því eins og það vill,“ sagði Kolbrún. „Þetta er mikið fyrir einn að taka að sér en fólk situr áfram í nefndum og það breytist ekki.“
Aldey verður einnig fulltrúi V-lista í fimm ráðum og nefndum en varamaður hennar verður Guðrún Sædís Harðardóttir, sem skipaði 10. sæti á V-lista í kosningunum.