Ætlaðirðu að skrifa mér eða endurskoðandanum, Jón Helgi?

Kæri Jón Helgi. Þakka þér fyrir bréfið sem þú sendir mér á 640.is um daginn. Það var drengilegt af þér að senda það þangað og gefa mér þannig kost á að

Trausti Aðalsteinsson.
Trausti Aðalsteinsson.

Kæri Jón Helgi.

Þakka þér fyrir bréfið sem þú sendir mér á 640.is um daginn. Það var drengilegt af þér að senda það þangað og gefa mér þannig kost á að svara því tímanlega. Ég vona að þetta svar komi að gagni þrátt fyrir að virðumst lesa ársreikninga sveitarfélagsins og bréf endurskoðandans á afskaplega ólíkan hátt.

 

Þegar gjöldin hjá samstæðunni eru 317.977.000 krónum meiri en tekjurnar þá kann ég ekki annað og skýrara orð yfir það en tap. Afskriftir eru gjöld, hvernig sem þau eru til komin og hvenær sem ákveðið var að ráðast í fjárfestinguna, sem verið er að afskrifa. Þess vegna er það undarlegt að brigsla mér um að ég láta „líta út fyrir“ að tapið sé um 10% þegar tölurnar tala sínu máli.

 

            Enn furðulegri er sú fullyrðing þín að ég hafi í grein minni ýjað „að því að óeðlilegt sé að afborganir hækki“ þar sem ég var einfaldlega að vekja athygli á þeim viðvörunarorðum sem endurskoðandi lætur falla í sinni úttekt á rekstrinum en þau eru þessi orðrétt:

Sveitarfélagið er mjög skuldsett en heildarskuldir samstæðu Norðurþings námu 6,4 milljörðum kr. í árslok 2009 að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum og höfðu hækkað um 725,6 mkr. frá árinu 2008. Greiðslubyrði lána hefur þyngst verulega á síðustu tveimur árum en í lok ársins voru afborganir ársins 2010 áætlaðar um 410,7 mkr. samanborið við áætlaðar afborganir upp á 258 mkr. í ársbyrjun 2008. Nýjar lántökur samstæðu Norðurþings námu 331,8 mkr. á árinu 2009 en á sama tíma námu fjárfestingarhreyfingar samstæðunnar (kaup og sala eigna og eignarhluta) 29,4 mkr. Handbært fé samstæðunnar jókst um 54,1 mkr. á árinu 2009 og því ljóst að stór hluti lántöku á árinu 2009 hefur farið beint í afborganir lána og almennan rekstur. Óvíst er með þróun í skatttekjum og draga þarf úr útgjöldum ef sveitarfélagið á að geta staðið í skilum með afborganir lána á næstu misserum.

Eins og sjá má af bæði þessari beinu tilvitnun og grein minni í síðasta Skarpi, ýjaði ég ekki að nokkrum sköpuðum hlut. Mér fannst bara rétt að vekja athygli íbúanna á þessari stöðu af því mér fannst að þið í meirihlutanum hefðuð ekki tekið þessi orð alvarlega og það væri kjósenda að dæma um það hvort þetta væri í lagi eða ekki. Ef það er virkilega svo að í tilvitnuninni hér að ofan sé farið með rangt mál, eins og þú sakar mig um í bréfi þínu, þá væri miklu nær að skrifa endurskoðandanum bréf til að leiðrétta hann og leiðbeina um hvernig fara skuli að við endurskoðun reikninga Norðurþings. Ætlaðirðu kannski að skrifa honum en ekki mér? Heldurðu að hann myndi þá kannski síður leyfa sér framvegis að setja fram athugasemdir eins og þessa: „Í samstæðunni er bókfært eigið fé 287,3 mkr. og eiginfjárhlutfall 4,5%,“ heldur bæta því við að samkvæmt heimildum meirihlutans ætti sveitarfélagið svo og svo miklar „duldar eignir“ eins og þú kallar það?

            Ég sagði í Skarpsgreininni að það yrði „erfitt að minnka kostnaðinn við rekstur sveitarfélagsins“ eins og ástandið er um þessar mundir. En eigum við annarra kosta völ ef við ætlum að standa í skilum með afborganir, eins og endurskoðandinn bendir á? Eða er það bara rangt hjá honum? Ef til vill hefði það verið ágæt byrjun hjá ykkur að samþykkja tillögu um að lækka laun sveitarstjórnarfulltrúa í stað þess að fella hana fyrir skemmstu. Mér finnst það í öllu falli heiðarlegra en að loka leikskólanum og rukka foreldrana samt fyrir þá daga sem börnin fengu enga þjónustu þar.

            Hvað orkunýtinguna snertir þá held ég að þú ættir bara að lesa stjórnarsáttmálann, Jón Helgi, og draga þínar ályktanir af því sem þar stendur úr því að við skiljum athugasemdir endurskoðandans á svona ólíkan hátt. En fyrst langar mig að biðja þig að svara því hvort ekki hafi verið fundað með fulltrúum fyrirtækis sem hafði áhuga á að reisa hér kísilflöguverksmiðju, hversu margir þeir fundir hafi verið og hvers vegna ekki hafi orðið framhald á þeim viðræðum.

Virðingarfyllst, Trausti Aðalsteinsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744