Aðalsteinn og Hreinn heiðraðir á Húsavík í dagAlmennt - - Lestrar 307
Heiðrun sjómanna fór fram í dag í félagsaðstöðu Eldri borgara á Húsavík.
Að þessu sinni voru sjómennirnir Hreinn Jónsson og Aðalsteinn Ólafsson heiðraðir fyrir áratuga sjómennsku auk þess sem eiginkonur þeirra fengu blómvönd að gjöf frá Sjómannadeild Framsýnar sem sá um heiðrunina.
Það var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sem flutti ávarp við heiðrunina og gerði samkomunni grein fyrir lífshlaupi þeirra félaga til sjós. Hér má lesa ávarp Aðalsteins Árna en auk hans kom formaður Sjómannadeildar Framsýnar að heiðruninni, Jakob Gunnar Hjaltalín, samkoman í dag var fjölmenn:
Ágæta samkoma!
Ég vil byrja á því að óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og reyndar okkur öllum þar sem við flest tengjumst sjómennskunni á einn eða annan hátt.
Hefð er fyrir því hér á Húsavík að halda Sjómannadaginn hátíðlegan og heiðra húsvíska sjómenn fyrir vel unnin störf. Sjómannadeild Framsýnar hefur séð um heiðrunina undanfarin ár. Með mér hér í dag er Jakob Gunnar Hjaltalín formaður deildarinnar.
Því miður hefur heiðrunin fallið niður síðustu tvö ár sem tengist heimsfaraldri og ástæðulaust er að nefna hér frekar og flestir vilja gleyma.
Hetjur hafsins sem við ætlum að heiðra hér í dag eiga það sameiginlegt að hafa helgað sig sjómennskunni frá unglingsárum, nánast út æviskeiðið. Þeir byrjuðu báðir ungir að árum að upplifa stemninguna neðan við Bakkann sem var einstök á þeim tíma. Þar iðaði allt af lífi. Beitt var í flestum skúrum, ef menn voru ekki að beita voru þeir að fella net eða stokka upp bjóð. Það hjálpuðust allir að í þá daga, bæði ungir sem aldnir. Það var ekki í boði að sitja hjá.
Þetta eru félagarnir, Aðalsteinn Ólafsson og Hreinn Jónsson sem eru vel að því komnir að vera heiðraðir hér í dag.
Hreinn Jónsson:
Hreinn Jónsson eða Dilli eins og hann er oftast kallaður er fæddur á Húsavík 16. desember 1946, nánar tiltekið á Torginu. Foreldrar hans voru Álfheiður Eðvaldsdóttir og Eysteinn Gunnarsson, sem gekk honum í föðurstað.
Hreinn er kominn af mikilli sjómannafjölskyldu. Það kom því ekki á óvart að hann byrjaði ungur að árum að sniglast í beitningaskúrunum neðan við Bakkann. Á sínum langa sjómannsferli hefur Hreinn stundað sjómennsku og útgerð, auk þess að stýra fiskvinnslu í landi.
Á þessum tíma, þegar Hreinn var mjög ungur, átti faðir hans ásamt öðrum Hrönnina TH 36 sem þótti nokkuð mikill bátur á þeim tíma, enda um 15 tonn.
Þetta voru þeir Siggi Stísi og Aggi í Skuld. Það var stíft róið á Hrönn og einhverjar ákúrur fengu þeir fyrir að virða ekki daga sem öðrum þóttu heilagir. Allar vinnandi hendur komu að góðum notum og þar brást Hreinn ekki. Hann byrjaði á því að vinna í landi við bátinn þegar færi gafst til þess, þar til hann þótti gjaldgengur til sjós á sumarvertíð. Þórarinn Vigfússon eða Tóti í Jörfa var þá með bátinn.
Hreinn vildi skoða sig aðeins um og fór til Norðfjarðar um tíma þegar hann var 16 ára gamall. Þar byrjaði hann að vinna í landi í fiski áður en hann réði sig á Stefán Ben NK, sem var um 150 tonna bátur gerður út á línu, þorskanet og síld.
En hugurinn leitaði aftur heim. Hann réði sig hjá Kalla í Höfða á Sæborgina ÞH 55 sem gerð var út á snurvoð, áður en hann réði sig á Pétur Jónsson ÞH 50 sem gerður var út frá Sandgerði yfir vetrarvertíðina. Í brúnni stóð Tóti í Jörva. Hreinn var einnig á Pétri Jónssyni ÞH á síldarvertíð yfir sumarið.
Eftir um ársveru á Pétri Jónssyni ÞH hélt Hreinn yfir til Vestmannaeyja, þar sem hann munstraði sig á Eyjabergið VE 130, sem var tæplega 100 tonna stálbátur gerður út á net og fiskitroll.
Hreinn hefur verið heppinn til sjós í gegnum tíðina, samt sem áður var hann um borð í Eyjaberginu þegar báturinn strandaði á Faxaskerinu við Vestmannaeyjar árið 1966, mannbjörg varð en báturinn eyðilagðist. Hreinn var þá tvítugur að aldri.
Nú skyldi haldið heim til Húsavíkur, þangað sem Hreinn fór og réði sig hjá Útgerðarfélaginu Vísi. Þar átti hann góða tíma í nokkur ár á bátum Vísis, þeim Svani ÞH 100 og Sigþóri ÞH 100 með Ingvari Hólmgeirssyni skipstjóra og Hörður Þórhallsson stóð vaktina í landi. Hreinn var ekki bara á sjó heldur beitti hann í landi auk þess að taka til hendinni í fiskverkun sem Vísir rak um tíma.
Hreinn stundaði um tíma útgerð frá Húsavík annars vegar með þeim bræðrum Viðari og Guðmundi Eiríkssonum sem gerðu út bátinn Eirík ÞH, sem var 12 tonna bátur og hins vegar með Kristjáni bróður sínum og Eymundi Kristjánssyni sem gerðu út trilluna Sjóbirting ÞH. Bátarnir voru gerðir út á línu og handfæri.
Þegar þarna var komið ákvað Hreinn að flytja suður og að sjálfsögðu réði hann sig á bát, reyndar urðu þeir nokkrir auk þess sem hann beitti einnig í landi. Þetta voru bátarnir Ægir Jóhannsson ÞH, Sigrún GK og Snæfari ÞH.
Það má Hreinn eiga, að hann hefur sem betur fer, alltaf skilað sér aftur heim eftir að hafa farið á vertíðir víða um land. Eftir nokkra ára dvöl á höfuðborgarsvæðinu flutti Hreinn aftur heim til Húsavíkur og réði sig hjá Ugga fiskverkun ehf. sem var með útgerð og fiskvinnslu, það er hjá Ólafi Sigurðssyni. Hann byrjaði á því að sjá um fiskvinnsluna í landi áður en hann fór aftur á sjó á báta í eigu útgerðarinnar, nú síðast var hann á Haferninum ÞH 26 sem er skráður um 30 tonna stálbátur. Bátarnir í eigu Ugga voru aðallega gerðir út á snurvoð, net, línu og rækjutroll. Þegar Hreinn varð sjötugur fyrir nokkrum árum, batt hann Haförninn ÞH í síðasta sinn við bryggju og gekk stoltur frá borði eftir áratuga veru til sjós.
Eins og fram hefur komið á Hreinn farsælan og giftusamlegan ferill sem sjómaður við Íslandsstrendur, sem ber að virða.
Hreinn er giftur Svanhildi Þorleifsdóttur og búa þau á Húsavík. Saman eiga þau fimm börn, en þau voru bæði gift áður.
Hreinn, hafðu bestu þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina.
Aðalsteinn Ólafsson:
Aðalsteinn Ólafsson eða Alli eins og hann er oftast kallaður er fæddur á Húsavík 31. mars 1953. Foreldrar hans voru Ásgerður Júlíusdóttir og Ólafur Jón Aðalsteinsson. Aðalsteinn er giftur Huldu Sigríði Ingadóttir og eru þau búsett á Húsavík. Þau eiga fjögur börn.
Aðalsteinn stóð vart fram úr hnefa þegar hann byrjaði að venja komur sínar niður á bryggju. Alli bjó sem barn í Brún á Höfðaveginum og því var mjög stutt að fara niður í fjöru. Reyndar ber mörgum saman um að fjaran hafi verið, hér á árum áður, helsta leiksvæði barna og unglinga á Húsavík.
Faðir Aðalsteins var sjómaður og útgerðarmaður um tíma, en síðar starfaði hann sem hafnarvörður. Þegar Alli var um sjö ára gamall byrjaði hann að fara í róðra með föður sínum á Sæborginni ÞH 55 sem hann gerði út ásamt félögum sínum. Fyrir fermingu var Alli byrjaður að stokka upp bjóð en fljótlega upp úr því fór hann að beita, þrátt fyrir að hugur hans leitaði frekar út á sjó.
Draumurinn varð að veruleika haustið 1969 en þá réði hann sig sem háseta á Sæborgina ÞH með Aðalsteini frænda sínum Karlssyni skipstjóra, þá 15 ára gamall. Gert var út á línu og þorskanet.
Alli var þar í nokkur ár þar til hann fór á Svaninn ÞH 100 frá Húsavík með skipstjóranum Ingvari Hólmgeirssyni. Þar var hann í þrjú ár eða til ársins 1976. Svanur ÞH stundaði línu og þorskanet.
Alli söðlaði um og réði sig á togarann Júlíus Havsteen ÞH 1 við komu hans til Húsavíkur, fyrsta skuttogara Húsvíkinga sem var smíðaður á Akranesi og afhentur Útgerðarfyrirtækinu Höfða árið 1976. Togarinn var tæplega 300 brúttórúmlestir að stærð. Reyndur skipstjóri frá Akureyri, Benóný Antonsson, var fenginn til að vera með skipið.
Um borð í Júlíusi var Alli bæði háseti og bátsmaður. Hann stökk á milli togara í eigu Höfða hf. þegar nýr togari í eigu útgerðarfyrirtækisins kom til Húsavíkur vorið 1981, smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri. Togarinn sem var um 430 brúttórúmlestir fékk nafnið Kolbeinsey ÞH 10. Flestir úr áhöfn Júlíusar Havsteen fylgdu Alla yfir á nýja togarann þar sem hann hélt sínu starfi sem háseti og bátsmaður. Bæði Júlíus og Kolbeinsey voru gerð út á fiskitroll.
Eftir góða tíma á Kolbeinsey ÞH fór hann aftur um borð í Júlíus Havsteen ÞH, það er eftir að skipinu var breytt í frystitogara. Skipstjóri var Jóhann Gunnarsson sem Alli kunni vel að meta. Togarinn var gerður út á rækjutroll og frysti aflann um borð.
Árið 1989 var kominn tími á breytingar, Alli fór suður til Reykjavíkur og réði sig á fjölveiðiskipið Helgu RE 49 með skipstjóranum Geir Garðarssyni. Þar var hann í þrettán ár á fjórum skipum með sama nafni í eigu sömu útgerðar sem háseti og bátsmaður.
Áður en hann kom aftur heim til Húsavíkur réði hann sig um tíma á Röstina SK 17 sem gerð var út á rækju frá Sauðárkróki. Þingeyingurinn Jón Árni Jónsson var í brúnni.
Eftir stutta veru á Krók var kominn tími á breytingar. Alli hélt heim til Húsavíkur og réði sig hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants árið 2005 og síðar Norðursiglingu þar sem hann starfar í dag sem skipstjóri, en þar hefur hann reyndar verið allt frá því að hann réði sig á hvalaskoðunarbáta frá Húsavík.
Í stað þess að halda út á Skjálfandann á fiskiskipum í aflaleit stendur Alli nú keikur í brúnni á hvalaskoðunarbát. Hann leysir landfestar og tekur stefnuna út á Skjálfandann flesta daga með drekkhlaðinn bát af áhugasömum ferðamönnum frá flestum heimsálfum í leit að ævintýrum þar sem sjófuglar fljúga yfir bátnum og hvalir af öllum stæðum og gerðum heilsa með blæstri, auk þess að leika listir sínar við bátana við mikinn fögnuð gestanna. Vissulega er það ólýsanleg upplifun fyrir karlinn í brúnni að líða um hafflötinn við heimskautsbaug, um borð í fallegum íslenskum eikarbát, umkringdur hvölum, fuglalífi og ægifagurri náttúru. Ekki skemmir fyrir að um borð eru ferðamenn sem eiga ekki til orð til að lýsa upplifuninni og fegurðinni á Skjálfanda, þökk sé mönnum eins og Aðalsteini Ólafssyni sem átt hefur farsælan feril til sjós hvort heldur á fiskiskipum eða hvalaskoðunarbátum.
Aðalsteinn hafðu líkt og Hreinn bestu þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina. Ykkar framlag er ómetanlegt.
Fv. Hulda Sigríður, Aðalsteinn, Hreinn og Svanhildur ásamt lítilli snót.