Aðalfundur Velferðarsjóðs ÞingeyingaAðsent efni - - Lestrar 608
Fyrsti aðalfundur Velferðarsjóðs Þingeyinga var haldinn á Húsavík 14. febrúar síðastliðinn. Ingólfur Freysson, fráfarandi stjórnarmaður Velferðarsjóðsins, gerði grein fyrir starfsemi og tilurð sjóðsins þau ár sem hann hefur starfað.
Í máli hans kom m.a. fram að eftir hrunið 2008 hafi fulltrúar ýmissa stofnana og félagasamtaka í Norðurþingi, Rauða krossins, Þjóðkirkjunnar, félagsþjónustu, kvenfélaga, verkalýðsfélaga og fleiri komið saman til að fara yfir stöðu fólks í samfélaginu. Í framhaldi af því hafi verið sett á laggirnar Velferðarvakt aðila er koma að velferð fólks í Þingeyjarsýslum. Vaktin vann að söfnun upplýsinga og samræmingu aðgerða til styrktar þeim sem verst urðu úti fyrir áhrif hrunsins og hélt reglulega fundi frá árinu 2008 til 2011.
Jafnframt var stofnaður Velferðarsjóður sem opnaði reikning fyrir söfnunarfé í desember 2008. Söfnunarféð hefur komið að mjög góðum notum frá upphafi og gagnast þeim vel sem hafa þurft á fjárhagslegri aðstoð að halda. Aðstoðin hefur verið í formi styrkja, matarkorta og matargjafa. Stjórn Velferðarsjóðsins hefur unnið eftir ákveðnum úthlutunarreglum. Fyrsta stjórn sjóðsins var skipuð, Freydísi J. Freysteinsdóttur, félagsmálastjóra Norðurþings, Ingólfi Freyssyni formanni Rauðakrossdeildar Húsavíkur og nágrennis og Sighvati Karlssyni, sóknarpresti Húsavík. Stjórnin starfaði einnig sem úthlutunarnefnd. Þórhildur Sigurðardóttir tók við sem fulltrúi Rauðakrossdeildar í úthlutunarnefnd þegar Ingólfur hætti 2011 og Dögg Káradóttir félagsmálastjóri Norðurþings tók við af Freydísi í nefndinni sama ár. Flestar umsóknir um styrki úr sjóðnum hafa verið í desember ár hvert en dregið hefur úr þeim yfir sumarið. Gert hefur verið átak í málefnum sjóðsins með því að afla fjár og fastra stuðningsaðila. Á aðalfundinum voru samþykkt ný lög fyrir sjóðinn auk þess sem úthlutunarreglurnar eru í stöðugri endurskoðun. Öll vinna vegna sjóðsins hefur verið unnin í sjálfboðavinnu. Í lok síns máls lýsti Ingólfur Freysson yfir ánægju sinni með þróun sjóðsins, lagði áherslu á opna umræðu og upplýsingar til almennings um sjóðinn og þakkaði samstarf undanfarin ár.
Á fundinum voru lagðir fram endurskoðaðir reikningar fyrir árin 2008- 2009- 2010 og 2011 sem voru samþykktir samhljóða. Tillögur að skipan stjórnar voru bornar upp og samþykktar með lófaklappi: Formaður; Örnólfur Jóhann Ólafsson sóknarprestur á Skútustöðum. Meðstjórnendur; Sara Hólm frá Kvenfélagasambandi Suður- Þingeyinga og Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar- stéttarfélags. Varamenn í stjórn; Ásta Laufey Þórarinsdóttir frá Kvenfélagi Þistilfjarðar og Sif Jónsdóttir frá Kvenfélagasambandi Suður- Þingeyinga. Félagslegir skoðunarmenn reikninga; Guðlaug Gísladóttir og Ingólfur Freysson frá Rauðakrossinum. Endurskoðandi reikninga Svava Björg Kristjánsdóttir.
Fundurinn fór vel fram og töluverðar umræður urðu um starfsemi sjóðsins, úthlutunarreglur og mikilvægi sjóðsins fyrir samfélagið í Þingeyjarsýslum. (Fréttatilkynning)