Að leyfa sér skammsýni fyrir skyndigróða

Hlutfall aldraðra af mannfjölda þjóðarinnar fer hækkandi. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands verður hágildi mannfjöldans á Íslandi árið 2065 eða

Að leyfa sér skammsýni fyrir skyndigróða
Aðsent efni - - Lestrar 721

Hjálmar Bogi Hafliðason.
Hjálmar Bogi Hafliðason.

Hlutfall aldraðra af mannfjölda þjóðarinnar fer hækkandi. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands verður hágildi mannfjöldans á Íslandi árið 2065 eða eftir 47 ár um 523.000 einstaklingar. 

Samkvæmt sömu spá verður fjórðungur íslensku þjóðarinnar 67 ára eða eldri. Í Norðurþingi er hlutfall eldri borgara um 15% íbúa en landsmeðaltal er um 11%. Sem þýðir að hlutfall eldri borgara í okkar samfélagi er hærra en víða annarsstaðar.

Þróun í eina átt

Við höfum skyldur gagnvart íbúum samfélagsins og til þess skipuleggjum við framtíðina; hvar við bjóðum okkar eldra fólki að búa. Öll sveitarfélög vinna að þessu. Stefna samfélagsins er að hver íbúi sé eins lengi heima og kostur er með aðstoð samfélagsins. Það þýðir að aldursviðmið fólks sem kýs eða þarf að búa í húsnæði sem er byggt á samfélagslegum forsendum og jafnvel hjúkrunarrými fer hækkandi. Eða, fólk fer fer seinna að heiman til að lifa síðustu ævikvöldin. Öldruðum fjölgaði um 5% á árinum 2010 til 2015 og mun fjölga um 15% frá árinu 2015 til 2020. Ekkert mun stöðva þessa þróun sem er hafin!

Samkvæmt Hagstofu Íslands verður fjölgun einstaklinga í mannfjöldaspá frá árinu 2013 til 2040 í hópnum 67-80 ára á bilinu 99-101% og 143-144% í hópnum 80 ára og eldri. Til samanburðar má nefna að fjölgun einstaklinga frá 2013 - 2040 í hópnum 50-67 ára verður á bilinu 23-28%. Því er ljóst að íslenska þjóðin er að eldast!

Útgarður fyrir aldraða

Okkar samfélag hafði skipulagt byggð fyrir eldri borgara við Útgarð á Húsavík. Þegar byggt eitt fjölbýlishús, Útgarð 4 og bílakjallara fyrir Útgarð 4, 6 & 8. Þessari kvöð skipulagsins hefur nú verið breytt þvert á þróun samfélagsins varðandi samsetningu mannfjöldans. Auk þess sem svæðið er framselt til handa einkaaðila sem hyggst byggja fyrir 55 ára og eldri. Í upphafi var reyndar óskað eftir að aldursviðmiðin yrðu 50 ára, svo 60 en niðurstaða skipulags varð 55 ára. Af einhverjum ástæðum ákváðu menn að skipulagið myndi kveða á um að þar skyldi byggt fyrir eldri borgara.

Rúmlega 80 einstaklingar í Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrenni skrifuðu nafn sitt á undirskriftarlista þar sem þessum aldursmörkum í nýju skipulagi fyrir Útgarð er mótmælt. Ekkert tillit var tekið til þess!

Gjafagjörningur

Bókfært virði 8 íbúða við Útgarð 4 og 16 stæða í bílakjallara, skv. ársreikningi Leigufélags Hvamms ehf. fyrir árið 2017, nemur 173.141.563.- króna.  Eftir sölu á bílakjallara, þar sem 8 bílastæðanna tilheyra íbúðum við Útgarð 4 og önnur 8 bílastæði tilheyra nýbyggingu við Útgarð 6 – 8, mun virði eigna Leigufélags Hvamms ehf. minnka um 47 mkr. og skapa félaginu enn verri stöðu og dregur úr rekstarhæfni. Og hugsa sér ef rétt reynist, að hefðu menn beðið í ár með sölu á bílakjallara hefði virði eignarinnar fyrir samfélagið orðið meiri sem nemur greiðslum til Íbúðalánasjóðs upp á 27 milljónir samkvæmt skilmálum þar um. Ég beinlínis vona að ég hafi rangt fyrir mér. Það má áætla að meðalverð á bílastæði í bílakjallara sem í kringum 5 milljónir sem þýðir að með þessum gjörningi er einkaaðila afhentar milljónir á silfurfati.

Við þennan gjafagjörning sem lýsir skammsýni meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings vakna ótal spurningar. Hvar telur meirihlutinn skynsamlegt að byggja upp íbúðir fyrir eldri borgara og hver er stefna meirihlutans varðandi búsetuúrræði fyrir aldraða? Hefur sveitarfélagið hug á að fjárfesta í íbúðum við Útgarð 6 – 8; ef svo er fyrir hverja eru þær hugsaðar og hvert er kostnaðarmat á hverja íbúð? En áður hafa fulltrúar meirihlutans lýst áhuga á því að sveitarfélagið taki þátt í verkefninu.

Mikilvæg uppbygging

Um leið er það sérstakt fagnaðarefni að fjárfestir vilji byggja upp íbúðir á almennum markaði. En af hverju við Útgarð nema að þar eru menn að fá eitthvað af gæðum samfélagsins? En lóðir fyrir slíkt eru hugsaðar á öðrum stað en þessum sem um ræðir við Útgarð, s.s. við Grundargarð 2 eða á Skemmureit við Vallholtsveg á Húsavík. Það verður dýrkeypt að horfa ekki lengra fram í tímann en raun ber vitni og verður allur gjörningur við þessa framkvæmd á ábyrgð meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings sem víkur frá samfélagslegum sjónarmiðum fyrir óútskýranlega skammtíma ákvörðun.

Samningur um framsal lóðar þegar fallinn úr gildi

Fyrir utan þá stjórnsýslulega meðferð málsins hjá Norðurþingi sem er að mati okkar í minnihluta sveitarstjórnar ábótavant. Í síðasta tölublaði Skarps var sagt frá skólfustungu á nýrri byggingu. Vissulega er það fagnaðarefni að einstaklingar sýni frumkvæði, áræðni og dug til góðra verka. Það breytir því ekki að skipulagið hafði ekki verið samþykkt þegar athöfnin fór fram. Í samningi um framsal lóðarréttinda að Útgarði 6 & 8 milli Leigufélags Hvamms ehf. sem seljanda og Arctic Edge Consulting sem kaupanda má lesa í 3. málsgrein 5. greinar eftirfarandi: „Hafi framkvæmdir ekki hafist á byggingarreitnum fyrir 1. október 2018 fellur heimild kaupanda, eða sérstaks byggingarfélags á hans vegum, samkvæmt samningi þessum niður‟.

Nei, málið snýst ekki um að vera á móti til að vera á móti heldur að við sem gætum hagsmuna samfélagsins lítum á allar hliðar málsins, horfum til framtíðar með uppbyggingu í huga. Við getum ekki leyft okkur skammsýni eða skyndigróða í nafni sérhagsmuna.

Hjálmar Bogi Hafliðason

Oddviti Framsóknar & félagshyggju

Norðurþingi


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744