Að eiga við viðhorfAðsent efni - - Lestrar 686
Lífskjör á Íslandi og víðar hafa verið fengin að láni og þegar kemur að skuldadögum beita menn ýmsum leiðum. Sumir telja skynsamlegt að hækka skatta sem leiðir af sér minni neyslu. Aðrir taka enn meira lán. Svo eru þeir til sem skera niður þjónustu sem veikja stoðir hvers samfélags og draga úr hæfni þeirra til að skapa verðmæti. Um leið hefur fjárfestum bæði innlendum sem erlendum verið gert ill mögulegt að ávaxta sitt fé.
Til að draga úr skuldum þarf að skapa verðmæti. Íslendingar búa að miklum auðlindum, fæðu, vatni og orku. Landið er gjöfult og auðlindir þarf að nýta skynsamlega með heildarhagsmuni í huga. Víða um land eru kjöraðstæður fyrir hvers konar fjárfestingu. Slíkt skapar störf, það verður til framleiðni og svo tekjur. Öll erum við sammála um að velmegun framtíðarinnar liggur í því að nýta þessar auðlindir. En einhvern veginn virðist þessi framtíðarsýn ekki ná til tækifæra utan SV-hornsins og er umhugsunarefni, hvað veldur?
Rannsóknir hafa sýnt að viðhorf manna eru eitt af því erfiðasta sem hægt er að breyta. Sérstaklega þegar kemur að hlutum sem skipa mikilvægan sess í lífi fólks. Þá skipta rök og staðreyndir jafnvel engu máli. Staðreyndir sem stangast á við viðhorf eru dregnar í efa, viðhorf og skoðanir verða þess í stað staðreyndir í hugum okkar. Fólk hefur þörf á að hafa málstað og myndar sér gjarnan einhverja skoðun byggða á óskhyggju, þ.e. fólk trúir einhverju svo mikið að það fer að búa til rök sem leiða að fyrirfram gefinni niðurstöðu og viðhorfum ásamt staðreyndum sem passa við þau.
Í Þingeyjarsýslum eru mikil tækifæri til að nýta auðlindir skynsamlega, skapa störf, framleiða og vinna þjóðina út úr kreppu og stöðnun. Því miður virðist þessi uppbygging ekki þeim þóknanlega sem fara með valdið. Hvað veldur? Búa ekki nógu margir í Þingeyjarsýslum og því minni hagsmuna að gæta? Stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum í kreppunni dregið verulega úr möguleikum samfélaga til að vaxa og dafna. Er þetta æskileg þróun á Íslandi? Setjum þetta í samhengi við það að 8-11 einstaklingar fara af landi brott daglega. Þannig tapast þekking, reynsla, menntun, hæfni o.fl. Er þetta æskileg þróun á Íslandi?
Til að snúa þessari þróun við þurfum við Íslendingar að líta í eigin barm, breyta viðhorfi okkar og átta okkur á því að öll skiptum við jafn miklu máli. Þau tækifæri sem felast í uppbyggingu á einu samfélagi veikir ekki önnur samfélög. Því miður hefur þetta viðhorf einkennt stjórnun landsins í of langan tíma. Leyfum samfélögum að nýta sín tækifæri til uppbyggingar. Fólk á höfuðborgarsvæðinu tapar ekki á uppbyggingu í Þingeyjarsýslu, þvert á móti.
Hjálmar Bogi Hafliðason
kennari.