,,Tækifærin eru til staðar, kerfið er bara fyrirAðsent efni - - Lestrar 131
,,Ég skil bara ekkert í því af hverju það er verið að setja peninga inn í eitthvað byggðaþróunar kerfi en svo eru reglurnar svo stífar að það getur engin uppfyllt skilyrðin nema örfáir aðilar á svæðinu, oft ansi mikil sérhagsmunagæsla þar á ferð.
Það þarf bara að setja inn fjármagn til þess að byggja hentugar íbúðir sem íbúar eru að kalla eftir svo hér geti blómstrað fjölbreytt atvinnulíf. Fólk vill koma en það getur hvergi búið.”
,,Ríkið á að bera ábyrgð á því að viðhalda góðum vegum, ár eftir ár keyri ég á holóttum og handónýtum vegum. Ég get alveg haldið áfram að búa hér og halda hér búi en ég þarf að geta treyst á góða vegi. ”
,,Það er ótrúlegt að upplifa það eftir 25 ár í fyrirtækjarekstri í þorpi á Norðausturhorni landsins sé mér ekki enn treyst fyrir því að fá lán hjá mínum viðskiptabanka til frekari uppbyggingar á svæðinu. Samkvæmt honum erum við á áhættufjárfestinga svæði en eftirspurn eftir uppbyggingu er samt til staðar.”
,,Kerfið þarf bara að hætta að flækjast fyrir, við eigum að fá tækifæri til að byggja upp samfélagið eins og við teljum vera best.”
,,Við verðum að horfa til þess að blanda saman opinberum og einkareknum úrræðum í grunnskólakerfinu. Það eru til flottar fjarskólalausnir sem nemendur í dreifðum byggðum verða að fá að nýta sér í bland við nám í heimabyggð.”
Þetta eru dæmi um það sem brennur á fólki á Norðausturhluta landsins. Þau vilja tækifæri. Tækifæri til þess að byggja upp sín samfélög eins og þau telja vera best. Um liðna helgi fórum við, sjö frambjóðendur Viðreisnar á flakk um kjördæmið í blíðskaparveðri og kynntumst krafti fólks á svæðinu. En það var líka þreyta í þeim. Íbúar í nyrsta hluta Norðausturkjördæmis eru flestir þreyttir á úrræðaleysi, innihaldslausum loforðum um betri tíma og eru margir hverjir að gefast upp á íslenskri sérhagsmuna pólítík. Þau eru þreytt á því að stjórnmálafólk kíki í heimsókn á fjögurra ára fresti til að klappa þeim á bakið og dást af þeim - eins og íbúar svæðisins séu letidýr í dýragarði en ekki forystufé eins og það raunverulega vill fá tækifærin til að vera. Mikil forræðishyggja, flækjustig og ósveigjanleiki í opinberum kerfum hefur einkennt síðustu ár. Allstaðar þar sem við stigum niður fæti fór hugurinn til teiknimyndarinnar Ástríks og Steinríks og þrautanna 12 þar sem Ástríkur þarf að yfirstíga skriffinnsku Sesars. Ég spyr, af hverju er verið að miðstýra því sem gerist í sveitarfélögum landsins frá Alþingishúsinu?
Ég hef aldrei búið á Húsavík og veit því ekkert hvaða forgangsatriði sveitarfélagið Norðurþing þarf að vinna að til að halda þar uppi blómlegri byggð - ætli Húsvíkingar viti það ekki best? Ég hef tvisvar komið til Fáskrúðsfjarðar, ég hef ekki hugmynd um hvað þarf til svo þar sé fjölbreytt atvinnulíf - held að íbúar svæðisins séu fullkomlega færir um að meta það sjálfir.
Eftir samtöl helgarinnar er ég enn sannfærðari en áður um að íslenska ríkið þarf að styrkja sveitarstjórnarstigið og einfalda regluverkið til þess að íbúar geti byggt upp sitt nærumhverfi með elju og hugviti sínu svo komandi kynslóðir hafi raunverulegt val um búsetu innan Norðausturkjördæmis. Að minnsta kosti að einfalda regluverkið svo það sé hægt að selja vöfflu með rjóma til ferðamanna sem þarf ekki að þeyta í vottuðu eldhúsi.
Lovísa Oktovía Eyvindsdóttir.
Frambjóðandi í 3. sæti á lista Viðreisnar fyrir komandi Alþingiskosningar.