Völsungur/Efling Íslandsmeistarar U20 annað árið í röð

U20 karlalið Völsungs/Eflingar urðu um síðustu helgi Íslandsmeistarar í sínum flokki, annað árið í röð.

Völsungur/Efling Íslandsmeistarar U20
Völsungur/Efling Íslandsmeistarar U20

U20 karlalið Völsungs/Eflingar urðu um síðustu helgi Íslandsmeistarar í sínum flokki, annað árið í röð.

Fyrirkomulag mótsins í vetur var með þeim hætti að U20 liðin spiluðu í 1. deild ásamt meistaraflokkliðum og B liðum annarra félaga. Leikið var í tveim landshlutaskiptum riðlum og með bland af helgarmótum og heima-/útileikjum. Þegar 1. deildin var búin var liðunum skipt upp í tvær úrslitakeppnir þar sem U20 liðin mættust annars vegar og meistaraflokksliðin hins vegar. 

Úrslitakeppnin í U20 fór fram um síðustu helgi á Neskaupstað. Var sú staðsetning valin þar sem Þróttur Fjarðabyggð varð Deildarmeistari að lokinni keppni í 1. deild. Völsungur/Efling kom inn í úrslitakeppnina í 3ja sæti af U20 liðunum og mætti liði HK í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Eftir nokkuð jafna byrjun í fyrstu hrinu náðu Völsungar vopnum sínum og lögðu HK nokkuð örugglega að velli 3 – 0 og tryggðu þannig sæti í undanúrslitum.

Þar mætti liðið nágrönnunum í KA. Liðin hafa mæst nokkrum sinnum í vetur og skipt með sér sigrum og því mátti reikna með hörkuleik. Völsungar mættu hins vegar mjög vel stemmdir í þennan leik og unnu nokkuð þægilegan sigur 3 – 0 þrátt fyrir að KA næði aðeins að berja frá sér í þriðju hrinu. Sæti í úrslitunum trygg gegn heimaliðinu og Deildarmeisturunum í Þrótti sem lögðu nafna sína frá Reykjavík í undanúrslitum 3 – 0. 

Úrslitaleikurinn var æsispennandi. Þróttur náði undirtökunum um miðja fyrstu hrinu en góð barátta og flottur sóknarleikur Völsungs skilað þeim sigri í hrinunni í upphækkun 26 – 28. Þessi góði endir á fyrstu hrinunni var sem olía á eldinn hjá „grænum“. Hrina tvö var virkilega vel spiluð hjá þeim og áttu Þróttarar fá svör við flottum sóknarleik Völsungs. Hrinan endaði 21 – 25 fyrir Völsung sem voru þarna komnir með aðra höndina á titilinn.

Heimamenn, vel studdir af fjölda áhorfenda, mættu dýrvitlausir í þriðju hrinu og sóttu sigur 25 – 19 meðan Völsungar virtust aðeins falla í þá gryfju að bíða eftir að andstæðingurinn gerði mistökin frekar en að sækja sigurinn sjálfir. Þau mistök gerðu þeir ekki aftur og fjórða hrinan var jöfn og spennandi allt til loka. Völsungar höfðu að lokum sigur 22 – 25 og tryggðu sér um leið Íslandsmeistaratitilinn í U20, annað árið í röð. /Andri Hnikarr.

Aðsend mynd

Ljósmynd Sigga Þrúða.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744