05. feb
Völsungar í átta liða úrslit KjörísbikarsinsÍþróttir - - Lestrar 105
Völsungur lék gegn Blakfélagi Hafnarfjarðar í 1. umferð Kjörísbikars karla í PCC höllinni í gær.
Það var vel mætt í höllina, yfir 100 áhorfendur og gríðargóð stemming í stúkunni sem og hjá keppendum sem buðu viðstöddum upp á gæðablak í skemmtilegum leik.
Fyrsta hrina fór frekar rólega af stað en bæði lið sýndu góða takta. Völsungur leiddi þó meirihluta hrinunnar með litlum mun og jafnt var nokkrum sinnum í hrinunni en í stöðunni 21-21 en tóku Völsungar af skarið og kláruðu hrinuna 25-21.
Önnur hrina var sömuleiðis frekar jöfn, Völsungar byrjuðu ögn betur en svo skipust liðin á forystu og var jafnt á mörgum tölum, m.a. 23-23 en þá kláruðu heimamenn næstu tvö stig og hrinuna 25-23.
Hrina þrjú byrjaði jafnt eins og hinar tvær en svo settu Völsungar í gírinn og héldu öruggri 3-6 stiga forystu út hrinuna sem þeir unnu 25-17 og leikinn þar með 3-0.
Stigahæstir í liði Völsungs voru Aron Bjarki Kristjánsson með 14 stig og Sigurður Helgi Brynjúlfsson með 10 stig og í liði Blakfélags Hafnarfjarðar var Tómas Þór Þorsteinsson með 9 stig.
Með sigrinum er hið unga og efnilega Völsungslið komið áfram í 8 liða úrslit og mætir úrvalsdeildarliði Vestra á Húsavík þ. 25. febrúar nk.