Rótarýklúbbur Húsavíkur 80 ára

Rótarýklúbbur Húsavíkur hélt upp á 80 ára afmæli klúbbsins laugardaginn 29. febrúar sl. en afmælisdagurinn sjálfur var reyndar þann 18.febrúar.

Rótarýklúbbur Húsavíkur 80 ára
Aðsent efni - - Lestrar 419

Frá 80 ára afmæli Rótarýklúbbs Húsavíkur.
Frá 80 ára afmæli Rótarýklúbbs Húsavíkur.

Rótarýklúbbur Húsavíkur hélt upp á 80 ára afmæli klúbbsins laugardaginn 29. febrúar sl. en afmælisdagurinn sjálfur var reyndar þann 18.febrúar.

Þetta voru vegleg hátíðarhöld sem hófust með opnum fundi í Sjóminjasafninu um kl. 14:00. 

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Gísli G. Auðunsson forseti Rótarýklúbbs Húsavíkur.

Gísli G. Auðunsson, forseti klúbbsins, lýsti tildrögunnum að stofnun klúbbsins og fór einnig nokkrum orðum um áherslur hans og starf til þessa dags. Næst tók til máls Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri Rótarý og forstjóri Reykjalundar. Hún fjallaði fyrst og fremst um áherslur Rótarýhreyfingarinnar á heimsvísu, en hreyfingin er mjög öflug og starfar nánast í öllum löndum heims.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Anna Stefánsdóttir umdæmisstjóri Rótarýklúbbs Reykjavíkur.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Næsti fyrirlesari átti að vera Guðrún Nordal forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur og forstöðumaður Árnastofnunar. En svo ótrúlega vildi til að vélarbilun varð í flugvélinni sem hún ætlaði að koma með norður og hún komst því ekki í tæka tíð. Soffía Gísladóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi og verðandi umdæmisstjóri Rótarý á næsta rótarýári, hljóp í skarðið fyrir Guðrúnu. Hún lýsti komu sinni í Rótarýhreyfinguna og harmaði að hafa ekki komið fyrr. Fór síðan nokkrum orðum um áherslur sínar sem umdæmisstjóri næsta árið.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Feðginin Soffía Gísladóttir og Gísli G. Auðunsson.

Að lokum talaði Þorkell Björnsson, heilbrigðisfulltrúi og sagnameistari, um „bæjarbrag“ á Húsavík við stofnun klúbbsins árið 1940 og sagði síðan skemmtilegar sögur af rótarýfélögum sem ekki eru með okkur lengur.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Þorkell Björnsson er sagnamaður góður.

Eftir fundinn í Sjóminjasafninu gengu fundargestir í Húsavíkurkirkju þar sem Sólveig Halla Kristjánsdóttir, sóknarprestur sagði sögu kirkjunar í nokkrum orðum og síðan söng karlakórinn Hreimur nokkur lög við góðar undirtektir.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Karlakórinn Hreimur.

Um kvöldið var efnt til hátíðarkvöldverðar á Fosshótel Húsavík. Þegar gestir gengu til borðs fluttu ungir harmonikkuleikarar ásamt Árna Sigurbjarnarsyni skemmtilega tónlist. Örlygur Hnefill Jónsson sá um veislustjórn og á milli máltíða skemmtu Bylgja Steingrímsdóttir og Elvar Bragason gestum með söng og hljóðfæraleik.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Auk félaga í Rótarýklúbbi Húsavíkur og maka þeirra voru margir góðir gestir svo sem frá Rótarýklúbbi Akureyrar og Sauðárkróks og fulltrúar annarra þjónustuklúbba á Húsavík. Fjölmargir fluttu árnaðaróskir og gjafir. Þess má að lokum geta að hópur Rótarýfélaga af Fljótsdalshéraði ætlaði að sækja hátíðina en komst ekki vegna ófærðar.

Gísli G. Auðunsson


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744