Rannsóknamiðstöð í eldfjallafræðum við KröfluAlmennt - - Lestrar 170
Landsvirkjun tekur þátt í Krafla Magma Testbed (KMT), viðamiklu alþjóðlegu jarðvísindaverkefni sem nú er í undirbúningi við Kröflu í Mývatnssveit.
Mikill fjöldi stofnana og háskóla kemur að verkefninu, en helstu aðilar þess eru jarðvísindastofnanir Bretlands, Bandaríkjanna og Ítalíu, ásamt Háskóla Íslands. Sérfræðingar frá 27 rannsóknastofnunum, háskólum og fyrirtækum í níu löndum hafa sameinast við undirbúning verkefnisins og margir af fremstu vísindamönnum heim á sviði eldfjallavísinda hafa lagst saman á árar, með það að markmiði að koma upp langtíma rannsóknamiðstöð í eldfjallafræðum við Kröflu.
Hlutverk Landsvirkjunar í KMT er að styðja við verkefnið með reynslu sinni af jarðhitanýtingu á svæðinu og þeirri þekkingu sem hefur skapast á svæðinu samhliða því. Þá mun fyrirtækið veita aðgang að rannsóknargögnum, mælibúnaði og innviðum á Kröflusvæðinu.
Á heimasíðu Landsvirkjunar segir að forsaga verkefnisins sé sú að rannsóknarboranir Landsvirkjunar í Kröflu hafa leitt í ljós að bergkvikan þar er einstaklega grunnstæð. Í Íslenska djúpborunarverkefninu á Kröflusvæðinu var árið 2009 borað í kviku og í reynd er Krafla eini staðurinn í heiminum þar sem nákvæmlega er vitað um hvar kviku er að finna í eldfjalli, en slík vitneskja skapar einstakt tækifæri fyrir jarðvísindasamfélagið til að rannsaka kviku og þróa mælitækni til að staðsetja kviku í eldfjöllum.
Í verkefninu er lögð höfuðáhersla á að skapa inniviði til að framkvæma rannsóknir á náttúruvá af völdum eldfjalla, en innviðir Landsvirkjunar í Kröflu, s.s. mikill fjöldi djúpra borhola, mælanet og aðrir innviðir, gera Kröflu að einstökum stað í heiminum til að stunda eldfjallarannsóknir.
Þegar til lengri tíma er litið gæti verkefnið stutt við framþróun í jarðvarmanýtingu með aukinni þekkingu á rótum jarðhitasvæða og samspili kviku og vatns djúpt í virkum eldfjöllum ásamt þróun á ýmsum tæknibúnaði.