Ingibjörg Halldórsdóttir skipuð í embætti framkvæmdastjóra VatnajökulsþjóðgarðsAlmennt - - Lestrar 213
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur skipað Ingibjörgu Halldórsdóttur í embætti framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs frá 1. janúar nk.
Frá þessu greinir á vef Stjórnarráðsins en Ingibjörg hefur verið settur framkvæmdastjóri þjóðgarðsins frá 1. september.
Hún er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 2002. Þá er hún með MBA gráðu frá Háskóla Íslands.
Áður starfaði hún sem lögfræðingur þjóðgarðsins frá árinu 2021.
Þá starfaði Ingibjörg á lögfræðistofunni LAND lögmenn (2017-2021), var sviðsstjóri lögfræðisviðs Mannvirkjastofnunar (2011-2017), lögfræðingur hjá Háskóla Íslands (2008-2011) og sem lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu (2001-2008) þar sem hún var staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu laga og stjórnsýslu.
Ingibjörg er gift Steinþóri Darra Þorsteinssyni og eiga þau þrjú börn.