Fyrsta skemmtiferðaskipið kemur í byrjun júlí

Von er á fyrsta skemmtiferðaskipi sumarsins til Húsavíkur þann 6. júlí nk. og þar verður á ferðinni Ocean Diamond.

Fyrsta skemmtiferðaskipið kemur í byrjun júlí
Almennt - - Lestrar 216

Ocean Diamond við bryggju á Húsavík.
Ocean Diamond við bryggju á Húsavík.

Von er á fyrsta skemmti-ferðaskipi sumarsins til Húsavíkur þann 6. júlí nk. og þar verður á ferðinni Ocean Diamond.

“Það skip ættu Húsvíkingar að þekkja vel en Ocean Diamond hefur komið til okkar með reglubundnum hætti á sumrin á undan-förnum árum og mun vonandi koma áfram til okkar um ókomin ár”. Sagði Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri Norðurþings í spjalli við vefstjóra um komur skemmtiferðaskipa í sumar.

Eins og staðan er í dag eru 25 komur skemmtiferðaskipa til Húsavíkur bókaðar í ár.

“Það er búið að vera nokkuð óljóst hvað muni koma af þeim skipum sem búið var að bóka fyrir sumarið 2021 og talsvert um afbókanir og bókanir sitt á hvað. 

Það er alltaf óvissa með septemberkomurnar þar sem allra veðra er von þegar liða tekur að hausti og yfirleitt hætta þau skip við að koma vegna tíðafars og sérstaklega seinni partinn í september” segir Þórir Örn en hann vonar þó að allar þær breytingar sem hugsanlega kunna að verða á planinu verði til fjölgunar frekar en fækkunar

Þórir Örn segir að ef Covid 19 hefði ekki komið til, og miðað sé við þær bókanir og afbókanir sem orðið hafa fyrir árið 2021 hefðu hugsanlega verið um 70 komur skemmtiferðaskipa til Húsavíkur-hafnar þetta sumarið. Það er ljóst að um umtalsverða aukningu hefði verið að ræða miðað við síðustu ár. 

Hvernig lítur næsta ár út ?

“Það er nú þegar er búið að bóka 40 komur skemmtiferðaskipa fyrir sumarið 2022 og lítur út fyrir aukinn áhuga þeirra að heimsækja Húsavík og nágrenni.

Hér eru tækifærin mikil hvað varðar ýmsa þjónustu, afþreyingu og áhugaverða skoðunarstaði fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Með opnun demantshringsins ásamt öðrum áhugaverðum tækifærum og afþreyingu af ýmsu tagi ætti að vera hægt að bjóða gestum svæðisins upp á  góða upplifun af svæðinu og markaðssetja svæðið enn frekar fyrir farþega skemmtiferðaskipa í framtíðinni til enn frekari hagsbóta fyrir fyrirtæki og íbúa sveitarfélagsins”. Segir Þórir Örn.

En hvernig er höfnin á Húsavík í stakk búin til að mæta þessari aukningu ef af verður ?

“Það er nokkuð ljóst að ráðast þarf í umtalsverðar hafnarbætur ef taka á á móti svo mörgum skipum og farþegum með sómasamlegum hætti. 

Núverandi aðstæður móttökusvæða, viðlegukanta og dýpi á hafnarsvæðinu setja móttöku slíkra skipa verulegar skorður. Okkur mun reynast erfitt að taka við öllum þeim skipum sem annars hefðu viljað koma til að nýta sér allt það sem við höfum upp á að bjóða í sveitarfélaginu.

Það eru mikil tækifæri í þessu og hagsmunir margra fyrirtækja geta því farið forgörðum ef ekki veður brugðist við fyrr en seinna hvað þetta varðar.“ Segir Þórir Örn og bætir við að fjölmörg fyrirtæki í sveitarfélaginu hafi haft hag af komum skemmtiferðaskipa til Húsavíkurhafnar á undanförnum árum.

Meðfylgjandi er listi yfir þær komur sem nú eru á skrá en ekki gott að segja hvort þetta eigi eftir að taka frekari breytingum þegar nær dregur.

Ljósmynd - Aðsend


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744