Farkennarinn – íslenska á vinnustað: Ný nálgun í íslenskukennslu

Árið 2022 hlaut Þekkingarnet Þingeyinga styrk úr þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar til að hanna og þróa nýjar leiðir í íslenskukennslu.

Ljósmynd hac.is
Ljósmynd hac.is

Árið 2022 hlaut Þekkingarnet Þingeyinga styrk úr þróunarsjóði framhaldsfræðslunnar til að hanna og þróa nýjar leiðir í íslenskukennslu.

Í samstarfi við Þráinn Árna Baldvinsson var þá lögð áhersla á kennslu íslensku í gegnum söngvaarf þjóðarinnar. Verkefnið vakti mikla ánægju og leiddi til áframhaldandi styrks á síðasta ári, að þessu sinni í samstarfi við Norðurþing.

Frá þessu segir á heimasíðu Þekkingarnetsins en verkefnið, sem ber heitið Farkennarinn – íslenska á vinnustað, miðar að því að þróa nýjar og aðlagaðar aðferðir til íslenskukennslu með nánu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Íslenskukennslan er færð út fyrir hefðbundnar kennslustofur og fram fer á vinnustaðnum sjálfum, á vinnutíma starfsmanna. Þetta snið hentar sérstaklega vel þar sem fjarkennsla er ekki raunhæfur valkostur, og lögð er áhersla á að taka mið af þörfum hvers vinnustaðar og starfsumhverfis.

Áður en kennslan hófst var gerð ítarleg greining á þörfum þátttökustaða með aðstoð yfirmanna á hverjum stað. Verkefnið spannar fjölbreyttar starfsstöðvar hjá Norðurþingi. Greiningin lagði mat á hvaða orðaforða og tungumálakunnáttu væri nauðsynleg í hverju starfi fyrir sig, ásamt því að kortleggja áherslur í þjálfun sem tengjast vinnustaðnum og faginu. Ákveðið var að kenna tvisvar í viku á vinnutíma og tóku yfirmenn vel í að hliðra til svo hægt væri að veita nemendum svigrúm til að mæta í kennsluna.

Alls taka 19 starfsmenn frá mismunandi vinnustöðum þátt í verkefninu, þar á meðal Leikskólanum Grænuvöllum, Sundlauginni á Húsavík, Frístund, Pálsgarði, Vík, Miðjunni og Stjórnsýsluhúsi. Forsvarsfólk Norðurþings tók strax vel í verkefnið og hefur Fjölmenningarfulltrúi, Nele Marie Beitelstein veitt ötulan stuðning við framkvæmd þess. Auk þess hefur Norðurþing fjárfest í aðgengi að Bara tala appinu til að veita þátttakendum frekari verkfæri í íslenskunáminu.

Kennslan er í höndum okkar reyndasta kennara, Dóru Ármannsdóttur sem leggur áherslu á hagnýta þjálfun sem byggir á raunverulegum aðstæðum vinnustaðanna. Nemendur hafa sýnt verulegar framfarir á skömmum tíma, bæði í orðaforða og í færni til að nýta íslenskuna í daglegu starfi.

Farkennarinn – íslenska á vinnustað er dæmi um vel heppnað verkefni sem leitar leiða til að mæta þörfum vinnumarkaðarins og þátttakenda með markvissri og hagnýtri íslenskukennslu. Með stuðningi Norðurþings og eldmóði þátttakenda er verkefnið að skila áþreifanlegum árangri sem nýtist bæði starfsfólki og samfélaginu í heild.

"Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að samstarf Þekkingarnetsins og Fjölmenningarfulltrúa Norðurþings hefur leitt til fleiri spennandi verkefna, sem verða kynnt á næstu mánuðum" segir í fréttinni.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744