Ársreikningur Norðurþings og stofnana fyrir árið 2024

Fyrri umræða um ársreikning Norðurþings fyrir árið 2024 fór fram í sveitarstjórn Norðurþings í Sjóminjasafni Húsavíkur í gær, 3. apríl 2025.

Ársreikningur Norðurþings og stofnana fyrir árið 2024
Fréttatilkynning - - Lestrar 110

Fyrri umræða um ársreikning Norðurþings fyrir árið 2024 fór fram í sveitarstjórn Norðurþings í Sjóminjasafni Húsavíkur í gær, 3. apríl 2025.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri gerði grein fyrir ársreikningnum og helstu lykiltölum á fundinum.

Rekstrarafkoma samstæðu Norðurþings

Tekjur eru verulega hærri en áætlun gerði ráð fyrir og eru um 8,3% hærri en raunin var árið 2023. Skatttekjur eru umtalsvert hærri en árið á undan og hækka um liðlega 7,8% á milli á ára. Tekjur jöfnunarsjóðs eru hækka um 7,4% á milli ára.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 6.825 milljónum króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 6.262 milljónum króna. 

Rekstrartekjur A hluta námu 5.718 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 5.306 milljónum króna.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var jákvæð um 388 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 71 milljóna króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu.

Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 232 milljónir króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 83 milljónir króna. 

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 4.211 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af var eigið fé A hluta um 2.233 milljónir króna. 

Laun og launatengd gjöld á árinu námu alls 3.806 milljónum króna en starfsmannafjöldi hjá sveitarfélaginu nam 320 stöðugildum í árslok.

Íbúafjöldi Norðurþings í árslok 2024 var 3.114 og fjölgað um 33 frá fyrra ári.

Skuldahlutfall samstæðu samkvæmt núgildandi reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga lækkaði nokkuð, fór úr 65% árið 2023 niður í 63% í árslok 2024. Lækkunin er tilkomin vegna aukinna tekna og engin ný langtímalán voru tekin á árinu. 

Í máli Katrínar Sigurjónsdóttur sveitarstjóra kom fram að heilt yfir er reksturinn svipaður og árið áður og skilar ívið meiri rekstrarafgangi en árið 2023. Rekstur er krefjandi um þessar mundir, bæði miklar framkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári og verulegar hækkanir tengdar ný gerðum kjarasamaningum, þannig að það þarf bæði að sýna skynsemi og aga í rekstrinum áfram.

Samkvæmt lögum ber að fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og fer síðari umræða fram þann 8. maí 2025, þar sem staðfesting sveitarstjórnar á ársreikningnum er fyrirhuguð.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744