Að byggja á grasrótarstarfi

Það er áralöng hefð fyrir því að framsóknarfólk og áhugafólk um samfélagið sitt komi saman á hverjum laugardagsmorgni til að ræða um hagsmuni samfélagsins.

Að byggja á grasrótarstarfi
Sveitarstjórnarkosningar 2018 - - Lestrar 373

Hjálmar Bogi Hafliðason.
Hjálmar Bogi Hafliðason.

Það er áralöng hefð fyrir því að framsóknarfólk og áhugafólk um samfélagið sitt komi saman á hverjum laugardagsmorgni til að ræða um hagsmuni samfélagsins.

Þetta er lífstíll. Líka eftir kosningar. Á þessu lærir maður og þroskast. Taka þátt í umræðum, gagnrýna, rökræða og leita lausna og leiða til hins betra. Við sem stöndum að framboði B-lista Framsóknarflokks og félagshyggjufólks kynntum framboðslistann okkar í upphafi marsmánaðar og vorum sömuleiðis fyrst að kynna meginmarkmið og áherslur. Það er ánægjulegt að önnur framboð feti nú í fótspor okkar varðandi stefnuna. Við byggjum okkar málefnastarf á sterkum grunni og menningu þar sem allir eru með. Þar sem öllum býðst að vera með. Grasrótarstarf sjálfboðaliðans.

Þrátt fyrir yfirlýsingar fulltrúa núverandi meirihluta um litar sem engar framkvæmdir og ekkert viðhald á síðasta kjörtímabili tala staðreyndirnar nú sínu máli. Þegar fulltrúar Framsóknarflokksins drógu vagninn í sveitarstjórn var m.a. byggður gervigrasvöllur á Húsavík og mötuneyti við Borgarhólsskóla. Í dag efast fáir um ágæti þessara framkvæmda.

Við viljum…

Framundan eru spennandi tímar. Að byggja upp skíða- og útivistarsvæði upp við Reyðarárhnjúk í samstarfi við áhugafólk og frumkvöðla verður ákaflega ánægjulegt verkefni enda um það mikill samhljómur. Sömuleiðis þarf að leita allra leiða til að draga úr álögum s.s. lækka leikskólagjöld og draga úr kostnaði við sorphirðu. Hvort tveggja er jú með því hæsta sem gerist á landinu og það hljóta allir að vera sammála um það að lækka þennan kostnað. Við viljum mæta framtíðinni með því að bjóða nemendum okkar frá fjórða bekk upp í tíunda bekk spjaldtölvu til afnota við nám sitt. Þannig lærir nemandinn að umgangast tækið og axla ábyrgð á rafrænni hegðun sinni.

Við kynntum þann möguleika að taka upp heimagreiðslur, þ.e. að bjóða foreldrum þann valkost að vera heima með barni sínu gegn greiðslu eftir að fæðingarorlofi lýkur og til tveggja ára aldurs. Við sem þekkjum það að starfa sem sjálfboðaliðar í hvers konar félagsstarfi vitum að rekstur slíkra félaga getur verið þungur og bitnað kjarnanum í félagsstarfinu. Þess vegna þarf að gera nýja samninga til lengri tíma og með hærri fjárhæðum. Að auka hvatastyrki til barna og ungmenna með forvarnir og lýðheilsu í huga á sem víðustu grunni; íþróttir, tónlist og hverju því sem stuðlar að vellíðan og þroska barns.

XB 2018

 

Við bjóðum okkur fram…

B – listann skipar afar fjölbreyttur hópur fólks með ólíka reynslu, áhuga og þekkingu. Það nýtum við okkur til að benda á leiðir til að gera samfélagið okkar betri stað til að búa í. Við bjóðum okkur fram til að gerast þjónar samfélagsins. Hlusta, taka þátt og vera þannig virkir borgarar. Gæta hagsmuna heildarinnar með bjartsýni og jákvæðni að leiðarljósi. Við viljum öll gera tilveruna betri. Byggjum á því. 

Hjálmar Bogi Hafliðason

Oddviti B – listans


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744