550 milljónir í markaðsverkefni fyrir ferðaþjónustuna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, hafa undirritað samning um framhald „Ísland saman í

550 milljónir í markaðsverkefni fyrir ferðaþjónustuna
Fréttatilkynning - - Lestrar 146

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, hafa undirritað samning um framhald „Ísland saman í sókn“ sem er markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu. 

Verkefnið er hluti af viðspyrnu stjórnvalda vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Með samningnum eru verkefninu tryggðar 550 milljónir króna í viðbótarfjármagn sem nýttar verða til að framlengja markaðsverkefnið í ár. 

„Ísland saman í sókn fór vel af stað, vakti mikla og verðskulda athygli og skilaði góðum árangri. Í ljósi þess að faraldurinn hefur dregist töluvert á langinn er nauðsynlegt að halda verkefninu áfram og byggja þannig undir nauðsynlega viðspyrnu ferðaþjónustunnar á árinu 2022,“ segir Lilja Dögg.

Tilgangur verkefnisins er að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina. Verkefnið er unnið í samræmi við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem ber yfirskriftina „Leiðandi í sjálfbærri þróun“ og langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. 

„Í gegnum faraldurinn hefur tekist að viðhalda miklum áhuga á ferðalögum til Íslands með markvissum aðgerðum. Markaðssetning áfangastaðar er langhlaup, og nú þegar gera má ráð fyrir að ferðaþjónusta sé að taka við sér á ný þurfum við að vera tilbúin til þess að mæta þeirri miklu samkeppni sem gera má ráð fyrir frá öðrum áfangastöðum og breyta þessum uppsafnaða áhuga í heimsóknir til landsins. Við erum spennt fyrir því verkefni sem framundan er í samstarfi við íslenska ferðaþjónustu,“ segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu. 

„Það er mjög mikilvægt og í raun nauðsynlegt fyrir greinina og áfangastaðinn Ísland að fá þennan stuðning núna þegar allir áfangastaðir heims fara að keppast um að ná til sín takmörkuðum fjölda ferðamanna. Ég vil hrósa ríkisstjórninni fyrir að taka þetta skref núna. Þessi fjárfesting mun skila sér í hraðari viðspyrnu fyrir ferðaþjónustuna í landinu og efnahagslífið í heild,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Ljósmynd - Aðsend

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar í Grósku við undirritun samningsins.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744