Jana Björg: Við gjörsamlega yfirspiluðum þærÍþróttir - - Lestrar 759
„Það var mjög svekkjandi að fá þarna mark á okkur undir lokin því við hefðum alveg átt að skora frekar en þær. Í fyrri hálfleik þá gjörsamlega yfirspiluðum við þær og mér finnst að við hefðum átt að taka sigurinn en mark er mark og það gildir. Þær fá svo víti í kjölfarið og leikurinn klárast," sagði Jana Björg Róbertsdóttir, maður leiksins, í gær eftir leik er Völsungsstelpur töpuðu, 2-0, gegn Hattarstúlkum á Fellavelli í fyrstu umferð Bikarkeppni KSÍ og hafa þar með lokið þátttöku sinni í bikarnum þetta árið.
Jana segir stelpurnar hafa verið mun tilbúnari í þennan leik heldur en gegn Fram um síðustu helgi og var Völsungsliðið með yfirburði í gær mest allan leikinn allt þar til undir lokin er heimastúlkur náðu að brjóta ísinn.
„Við vorum bara miklu klárari í leikinn í gær og ætluðum okkur að vinna þetta. Spiluðum miklu betur heldur en síðast, en við spiluðum líka ekki fótbolta á móti Fram svo það var augljóslega aðal munurinn," segir Jana Björg en er kominn skjálfti í stelpurnar þar sem enn er beðið eftir fyrsta sigri sumarsins ?
„Nei nei alls ekki, við höfum mikla trú á verkefninu og á okkur sjálfum svo við erum alveg rólegar," sagði Jana en um næstu helgi er komið að fyrsta heimaleiknum.
„Loksins fyrsti heimaleikur og hann leggst bara mjög vel í okkur. Allar spenntar fyrir heimaleik og að fá stuðninginn úr brekkunni. Það er
alltaf skemmtilegast að spila heima," sagði Jana að lokum spennt fyrir komandi helgi en stelpurnar mæta Álftanesi á sunnudag klukkan 14.
Frá leiknum í gær.
Tendgar greinar:
Umfjöllun: Gríðarsvekkjandi bikartap gegn Hetti