Einn stærsti hlýri sem mælst hefurAlmennt - - Lestrar 1064
Snemma í morgun var Lágey ÞH 265 að landa í Húsavíkurhöfn. Það er GPG fiskverkun á Húsavík sem er eigandi bátsins. Í aflanum var einn stærsti hlýri sem veiðst hefur við Ísland en hann var 32 kíló og 131 sentimetri að lengd.
„Þetta er boltafiskur“, sagði skipstjórinn Sverrir Þór Jónsson þegar blaðamaður leit við hjá þeim félögum en ásamt honum eru í áhöfn Karl Sigfússon, Andrés Helgi Björnsson og Friðrik Bjarnason. „Við vorum á svokölluðum Bennahól, austur af Grímsey þar sem hlýrinn veiddist“, segir Sverrir en bætir við að annars sé rólegt á miðunum. Hlýrinn var með ýsu í kjaftinum þegar hann var veiddur og þegar menn gerðu að honum í landi var ufsi í maganum.
Hjá Hafrannsóknarstofnun fengust þær upplýsignar að fiskurinn er einn af stærstu hlýrum sem hafa veiðst, „hann er sentimeter minni en sá stærsti“ segir Höskuldur Björnsson, verkfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun og bætir því við að þetta sé svona einn á móti fimmtíuþúsund fiskur og á pari við þá stærstu.