Árni á Eyri kominn heimAlmennt - - Lestrar 935
Það er alltaf ánægjulegt þegar nýir bátar koma til heimahafnar í fyrsta skipti og það var engin undantekning á því í dag þegar rækjubáturinn Árni á Eyri ÞH 205 kom til hafnar á Húsavík.
Eins og kom fram á 640.is snemma sumars keypti nýstofnað fyrirtæki, Eyrarhóll ehf., bátinn en að því fyrirtæki standa hjónin Guðmundur A. Hólmgeirsson og Helga Jónína Stefánsdóttir ásamt sonum sínum og tengdadóttur.
Báturinn hefur verið í slipp í Skipavík í Stykkishólmi í sumar og síðustu daga við Slippkantinn á Akureyri en unnið hefur verið að breytingum og endurbótum á honum.
Báturinn mun fara til rækjuveiða á Skjálfanda og verðu rækjan flokkuð og stærri rækjan soðin um borð. Hún verður síðan, ófrosin og ópilluð, flutt með flugi á markað í Skandinavíu.
Stefán Guðmundsson skipstjóri vonaðist til að þeir kæmust af stað í fyrramálið en strax og báturinn lagðist að bryggju var hafist handa við að koma veiðafærum um borð.
Árni á Eyri er smíðaður úr áli 1987, lengdur 1998 og mælist 75 brúttótonn að stærð.
Stefán og Árni Guðmundssynir glaðbeittir á svip enda ánægjulegt að koma með nýja báta til heimahafnar í fyrsta skipti.
Ef smellt er á myndirnar má fletta þeim og skoða þær í stærri upplausn.