Völsungur hefndi fyrir tapið í gærÍþróttir - - Lestrar 475
Völsungur og Stjarnan mættust aftur í dag í Mizunodeild kvenna.
Stjarnan sigraði leikinn í gær 1-3 en í dag var það Völsungur sem fór með sigur af hólmi. Leikurinn fór 3-0 (27-25, 25-21, 25-16).
Völsungsstúlkur komu mjög ákveðnar til leiks í fyrstu hrinu og komust í 8-2 forskot. Stjarnan náði hægt og bítandi að saxa á forskotið og jöfnuðu þær leikinn í 12-12. Liðin voru jöfn alla hrinuna og var Stjarnan í góðri stöðu til að tryggja sér sigur í hrinunni þegar þær voru yfir 24-25. Völsungur skoraði þá þrjú stig í röð og tryggði sér 27-25 sigur í hrinunni. Camilla Johansson var mjög öflug fyrir Völsung í hrinunni og skoraði hún 8 stig, þar af sjö úr sókn.
Önnur hrina fór mun jafnari af stað en sú fyrsta. Völsungur var þó með yfirhöndina í byrjun hrinunnar en Stjarnan náði að jafna í stöðunni 15-15. Enn var jafnt í stöðunni 20-20 en eftir það setti Völsungur í annan gír og skoraði fjögur stig í röð og staðan því orðin 24-20. Völsungur kláraði síðan hrinuna 25-21 eftir sóknarmistök hjá Stjörnunni.
Lið Völsungs byrjaði sterkt í þriðju hrinu og var staðan 11-6 þegar Stjarnan tók leikhlé. Völsungur var með yfirhöndina í stöðunni 17-12 þegar það kom frábær kafli hjá þeim og þær skoruðu fjögur stig í röð og komust þvi í 21-12. Stjarnan tók þá sitt annað leikhlé en það dugði ekki til og sigraði Völsungur hrinuna 25-16 og þar með leikinn 3-0.
Stighæst í leiknum var Erla Rán Eiríksdóttir, leikmaður Stjörnunnar, með 18 stig. Erla skoraði 16 stig úr sókn og tvö úr uppgjöf. Stigahæst í liði Völsungs var Camilla Johansson með 13 stig, þar af 12 úr sókn og eina hávörn. Arna Védís Bjarnadóttir og Sladjana Smiljanic áttu einnig góðan dag en Arna Védís skoraði 11 stig og Sladjana 10 fyrir Völsung.
Með sigrinum í dag hefur Völsungur unnið öll liðin í Mizunodeildinni nema Þrótt Nes. Það er því ljóst að liðin þurfa að vara sig á Völsung í úrslitakeppninni sem hefst í mars. (blakfréttir.is)