Jónsvika-Vinnuvika listamanna og listahátíð í Kaldbak

Jónsvika - vinnuvika listamanna - stendur nú yfir í Kaldbak. Sjö listamenn hafa dvalið í gamla Kaldbak frá því á sunnudag.

Jónsvika-Vinnuvika listamanna og listahátíð í Kaldbak
Aðsent efni - - Lestrar 753

Listamenn í heimsókn hjá Arnhildi.
Listamenn í heimsókn hjá Arnhildi.

Jónsvika - vinnuvika listamanna - stendur nú yfir í Kaldbak. Sjö listamenn hafa dvalið í gamla Kaldbak frá því á sunnudag.

Ýmislegt hefur á daga þeirra drifið og hafa heimamenn verið einstaklega hjálpfúsir og óeigingjarnir á tíma, ráðleggingar og gestrisni, enda hafa þeir af nógu að gefa og deila, og vonandi að listamennirnir geti einnig deilt og gefið e-ð inn í samfélagið til baka.

Á mánudaginn fór hópurinn til að mynda í heimsókn á trésmíðaverkstæðið Norðurvík, þar sem Örn og Bjarni, auk hinna drengjanna, tóku vel á móti listamönnunum. Vakti lakkvélin þar sérstaka athygli listamannanna, og einnig stóllinn sem þeir nota sem stuðning undir lökkun, enda um sérstakt listaverk að ræða og auðséð að drengirnir í Norðurvík eru vel að sér í skúlpturgerð! Sama dag kíkti hópurinn einnig við í Ísnet, Grím og Endurvinnslunni og ófáar ferðir voru farnar í bókabúðina og Húsasmiðjuna, svo ekki sé gleymt mjólkurbúðinni!

Á þriðjudaginn fór hópurinn í Safnahúsið, til dæmis til að sjá ljósmyndasýningu Norðurljósa, í Tún og svo í súpu á Gamla Bauk og í Hvalaskoðun. Sá hópurinn tvo steypireyði í flóanum og skapaðist mikil gleði innan hópsins, og þó kalt hafi verið á sjónum og örlað hafi fyrir smá sjóveiki, skemmdi það engan veginn fyrir fegurðinni og fjöllunum, og já öllum hvölunum.

Á miðvikudaginn var heimsóknum haldið áfram, og sérstaka athygli vakti húsið hans Martin Varga, Tungulending á Tjörnesi. Þar felast miklir möguleikar og er rýmið alveg einstaklega nýtilegt í alls kyns uppákomur, gjörninga, innsetningar, sýningar, tónleika, vinnustofur, listamanna-residency osfrv., osfrv, og umhverfið ekki af verri endanum! Ljóst er að nokkrir listamannanna munu heldur betur fara að auka komur sínar til Húsavíkur um leið og að rýmið kemst í gagnið og vonandi enn fleiri.

Einna mesta athygli af vinnuvikunni héðan af hefur laserskurðarvél Arnhildar Pálmadóttur vakið, enda menn varla séð annað eins! Stórkostlegt er að bæjarfélag eins og Húsavík hafi slíka vél innan sinna  marka - vél sem ekki er einu sinni Listaháskóli Íslands býður nemendum sínum upp á. Þykir einfaldlega vert að taka ofan af fyrir henni Arnhildi vegna þessa framlags og framsýnar sem hún greinilega býr yfir.

Tveir dagar eru eftir af vinnuvikunni, nú þegar þetta er skrifað, en endar vinnuvikan svo í Listahátíð í Kaldbak á laugardaginn 16. júní. Sýningin opnar kl. 15.00 og stendur fram eftir kvöldi. Kl. 20.00 tekur tónleikadagskrá við. Ókeypis er á sýninguna og allir velkomnir!

Undirrituð vill sérstaklega vekja athygli á því að Jónsvika er að leita eftir húsvískum DJ-um, klassískum hljóðfæraleikurum, kvikmyndatökumönnum og einnig góðum pennum sem vilja skrifa um sýninguna, eða bara einhverjum skapandi Húsvíkingum sem vilja vera með og aðstoða í sköpunarkraftinum og gleðinni hér í Kaldbak! Áhugasamir endilega sendið póst á: harpafonn@frafl.is.

 Listamenn og tónlistarmenn sem koma fram á Jónsviku í Kaldbak laugardaginn 16. júní:
 
Árni Már Erlingsson (REY)
Björk Viggósdóttir (REY)
Camilla Renate Nicolaisen (NO)
Dóra Hrund Gísladóttir (REY)
Hertha María Richardt Úlfarsdóttir (AK)
Mekkín Ragnarsdóttir (AK)
Þorleifur Gunnar Gíslason (REY)
Cheek Mountain Thief (UK, HÚS, REY)
Grúska Babúska (HÚS, REY)
Þórir Georg (HÚS, REY)
Friðrik Marinó Ragnarsson (HÚS)
Lára Sóley Jóhannesdóttir fiðluleikari (HÚS/AK)
Axel Flóvent (HÚS)
Einar Indra (HÚS/REY)

Fyrir hönd Jónsviku,
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744