Vilja tæki fyrir dósir-Söfnun hafinAðsent efni - - Lestrar 773
Framsýn og Þingiðn hafa ákveðið að hefja söfnun á einnota dósum og flöskum sem falla til í íbúðum félaganna í Þorrasölum í Kópavogi eftir dvöl félagsmanna.
Hugmyndin er að gestir setji umbúðirnar í poka og komi þeim fyrir í geymslu í blokkinni velji þeir að taka þátt í söfnuninni. Umbúðirnar verða síðan teknar og seldar. Andvirðið rennur óskipt til góðgerðarmála á félagssvæði stéttarfélaganna. Reiknað er með að úthluta úr sjóðnum einu sinni til tvisvar á ári. Samþykki er fyrir því innan félaganna að fyrsta úthlutunin renni til tækjakaupa á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Skipuð hefur verið fimm manna nefnd til að halda utan um verkefnið. Stéttarfélögin leita eftir samstöðu leigjenda í Þorrasölum um að taka þátt í söfnuninni sem ætlað er að efla samfélagið í Þingeyjarsýslum. Þess ber að geta að á hverju ári fellur til töluvert magn af einnota umbúðum. Sumt af því endar í ruslinu verðlaust. Stéttarfélögin vilja gera pening úr umbúðunum enda mikil þörf fyrir þá til góðgerðar- og velferðarmála. Fjölmörg dæmi er um að heilbrigðisstofnanir hafi ekki getað endurnýjað tæki og tól vegna peningaleysis.
Vonandi tekst vel til með söfnun Framsýnar og Þingiðnar svo hægt verði að leggja söfnunarféð til góðra málefna í héraðinu.