Verkefni Rauða krossins - Heimsóknavinir

Rauði kross Íslands sinnir margvíslegum verkefnum í samfélagi okkar eins og alkunna er og eitt þeirra er Heimsóknavinir.

Verkefni Rauða krossins - Heimsóknavinir
Aðsent efni - - Lestrar 622

Rauði kross Íslands sinnir margvíslegum verkefnum í samfélagi okkar eins og alkunna er og eitt þeirra er Heimsóknavinir.

Verkefnið er eitt af áhersluverkefnum Rauða kross Íslands og fór af stað árið 2001. Það ár tóku sjö deildir þátt í verkefninu sem breiðst hefur út jafnt og þétt. Í dag hafa um 30 af 50 deildum Rauða kross Íslands Heimsóknavinaverkefni  í gangi. Fjöldi heimsóknavina,  sjálfboðaliða í verkefninu, eru á bilinu 600-700 og fjöldi gestgjafa, þ.e. þeirra sem sótt hafa um og fengið þessa þjónustu, 800-900 einstaklingar. Heimsóknavinaverkefnið er viðleitni til að auka mannleg samskipti og er því tækifæri  fyrir alla sem vilja uppfylla félagslega þörf sína og annarra að einhverju marki.

Heimsóknavinur er í þessu tilfelli sjálfboðaliði, eldri en átján ára, sem vinnur á vegum Rauðakrossdeildar. Hann hefur sótt námskeið hjá Rauða krossinum, undirritað þagnarskyldu og sjálfboðaliðasamning.  Heimsóknavinur getur sótt námskeið með hundinn sinn með það markmið að heimsækja þá sem óska eftir hundavinaheimsókn. Einn heimsóknahundur sinnir verkefni með eigendum sínum á Húsavík.

Heimsóknavinur þarf að geta gefið af sér og umgengist fólk. Hann þarf að vera traustur og áreiðanlegur og ekki síst verður  hann að kunna að hlusta á aðra. Hlutverk hans er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Heimsóknavinur fer í heimsóknir til einstaklings/gestgjafa sem óskar eftir heimsóknum og þeir/þau gera með sér samning um heimsóknir, oftast miðað við einu sinni í viku í fjögur skipti til að byrja með. Heimsóknin getur verið á einkaheimili, dvalarheimili, sambýli, hjúkrunarheimili, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir eða sjúkrahúsi. Heimsóknavinur spjallar, hlustar, les, teflir, spilar, fer í gönguferðir eða ökuferðir. Allt eftir hugmyndaflugi og samkomulagi. Samveran á að vera gæðastund fyrir báða aðila.

Gestgjafinn, er sá sem óskar eftir heimsóknavini. Hann hefur samband við Rauðakrossdeildina, í þessu tilfelli hópstjóra verkefnisins, oft með milligöngu starfsfólks dvalarstaðar eða aðstandenda. Hópstjórinn sem heldur utan um verkefnið sér um samningsgerð milli gestgjafans og heimsóknavinar og tekur við ábendingum eða kvörtunum ef einhver áhyggjuefni koma upp.  Gestgjafinn getur verið ungur eða aldraður og búið við margs konar aðstæður og haft áhugamál af ýmsum toga.         

Starfssvæði  Húsavíkurdeildar og nágrennis nær í dag yfir Suður – Þingeyjarsýslu, austan Eyjafjarðarsvæðis.  Á þessu svæði eru félagslegar aðstæður íbúanna líkar og annars staðar í dreifbýli. Sumir búa dreift í sveitum og  aðrir í þéttbýliskjörnum.

Tekin var ákvörðun um að Húsavíkurdeildin réðist í Heimsóknavinaverkefnið og í nóvember 2011 sat nokkur hópur sjálfboðaliða námskeið. Leiðbeinandi var  verkefnisstjóri Rauða kross Íslands, Guðný Björnsdóttir. Markmiðið er að geta boðið íbúum á starfssvæðinu þessa þjónustu þeim að kostnaðarlausu. Unnið er nú að kynningu á verkefninu m.a. búið að dreifa bæklingum á heilsugæslustöðvar, dvalarheimili og sveitarstjórnaskrifstofur á svæðinu.

Hópstjórar Heimsóknavina Húsavíkurdeildarinnar halda utan um verkefnið, taka við umsóknum,  gera samninga milli gestgjafa og heimsóknavina, sjá sjálfboðaliðum fyrir fræðslu, kynna þjónustuna og taka við ábendingum. Hópstjórar eru, Guðrún H. Björnsdóttir sími; 464 3244 eða 898 1644 og Þórhildur Sigurðardóttir sími; 464 2157 eða 898 2157.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744