Traust uppbygging samfélagsAðsent efni - - Lestrar 417
Sá hraði sem íslenska þjóðin hefur
valið að lifa eftir hefur orðið henni að falli. Það er mikilvægt að hægja á sér, hugsa, lesa, skrifa og njóta augnabliksins.
Hvað er það sem skiptir máli þegar maður lifir lífinu? Er það að gera góð kaup, er það að reka fyrirtæki með
hámarks arðsemi eða vera nýtur og þenkjandi samfélagsþegn? Það fólk sem sagan man eftir og segir frá eru heimspekingar á
borð við Aristóteles, Sókrates eða Platon sem voru uppi 470 – 320 árum fyrir krist. Þeir voru þekktir fyrir að ganga um götur
hugsandi.
Til byggja upp fjölskyldu, fyrirtæki eða samfélag þarf maður að hugsa lengra. Skammtímagróði
og ör vöxtur verður seint til heilla. Þess vegna verðum við að setja okkur markmið sem ná langt og vera meðvituð um að við náum
þeim ekki strax. Það krefast samvinnu fólks hvort sem er í fjölskyldu, fyrirtæki eða samfélagi. Það þurfa allir að vera
meðvitaðir hver markmiðin eru og hvert við stefnum. Þess vegna á fólk að láta sig stefnu samfélagsins varða. Það verður gert
með því að kynna sér núverandi stefnu og koma skoðunum sínum á framfæri.
Kosningar eru í eðli sínu tæki til að koma skoðun sinni á framfæri. Til að mynda sér
afstöðu áður en atkvæði er greitt hefur kjósandi hugsað hvernig hann ætlar að verja atkvæði sínu. Hann lítur til mismunandi
þátta s.s. hvaða fólk það er sem mótar stefnuna, hvernig fólkið ætlar að móta stefnuna, hvernig það ætlar að
koma stefnu sinni í framkvæmda og hvenær. Í stefnunni hlýtur að felast að verja skal og bæta hag fjölskyldunnar, fyrirtækisins og
samfélagsins.
Að þessu sögðu hlýtur hver kjósandi að hafa ábyrgð. Hann hefur ábyrgð gangvart því hvernig hann ver atkvæði sínu og um leið ábyrgð gagnvart fjölskyldu sinni, fyrirtækjum sem hann á eða á í viðskipti við og samfélaginu sínu. Til að axla þessa ábyrgð verður kjósandi að hugsa hvernig hann vill sjá stefnuna. Öll erum við sammála um uppbyggingu þess samfélags sem við byggjum. Hvaða fólki treystir kjósandi?
Að byggja upp samfélag tekur langan tíma og því þurfum við að hafa langtíma markmið. Til er spakmæli sem segir, góður orðstír kemur smám saman en illur er auðfenginn. Gefum okkur því tíma með virðingu, staðfestu og ákveðni að leiðarljósi. Veljum okkur stefnu til lengri tíma og setjum markið hátt og hugsum inn á við. Samstaða í fjölskyldunni, fyrirtækinu eða samfélaginu verður að vera góð og traust ætlum við okkur að ná árangri saman.
Hjálmar Bogi Hafliðason
Skipar 4. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðurþingi