Þriðja sértæka grein um Vaðlaheiðargöng. Tekjur af veggjaldi

Eins og útskýrt var í grein eitt og tvö þá bendir allt til að aðalgjald 800 kr í Vaðlaheiðargöng verði til þess að meginþorri vegfarenda velji göngin og

Jón Þorvaldur Heiðarsson.
Jón Þorvaldur Heiðarsson.

Eins og útskýrt var í grein eitt og tvö þá bendir allt til að aðalgjald 800 kr í Vaðlaheiðargöng verði til þess að meginþorri vegfarenda velji göngin og ný umferð bætist jafnframt við þannig að fleiri fari um göngin en um Víkurskarð áður.  Hverjar verða þá tekjurnar af veggjaldinu?

 

Eðlilegt er að gera ráð fyrir að rekstrarfélag Vaðlaheiðarganga þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt af stofnkostnaði en þurfi þess í stað að greiða virðisaukaskatt af veggjöldunum.  Þannig er fyrirkomulagið í Hvalfjarðargöngum.  Skattþrepið yrði væntanlega 7% eins og þar.  Það er því ljóst að ekki nema 93,5% af veggjaldinu skila sér til rekstraraðilans.  Auk þess eru afsláttarkjör sem gera það að verkum að meðalgjald er lægra en 800 kr.  Að vísu munu stærri bílar greiða mun hærra gjald, tvöfalt til þrefalt hærra en aðalgjald fyrir fólksbíla og er líklegt að hlutfall þeirra verði nálægt 6%.  Rúmlega 40% fólksbíla greiddi fullt gjald í Hvalfjarðargöng árið 2000 en það hlutfall fór lækkandi með tímanum.  Hér er einfaldlega miðað við að þriðjungur fólksbílaumferðarinnar greiði fullt gjald, þriðjungur verði á 20% afslætti og þriðjungur á 40% afslætti.  Ef þessar forsendur standast eru tekjurnar um 84% af aðalgjaldi eða um 672 kr á hvern bíl og er þá miðað við 2.000 kr að meðaltali fyrir stóra bíla.  Oft eru tveir gjaldflokkar fyrir stóra bíla, þannig er það í Hvalfjarðargöngum. 

Ef miðað er við það sem áður var rökstutt í grein tvö að umferð á fyrsta ári verði ÁDU 1.457 verða heildartekjurnar 357,4 Mkr.  Á næsta ári á eftir verða tekjurnar 378,8 Mkr og síðan 2% hærri ár frá ári ef umferðin verður eins og sett var fram í grein tvö.

Ef miðað er við gjaldið 750 kr í stað 800 kr en sömu umferð þá yrðu tekjurnar lægri eða 335,0 Mkr á fyrsta ári og 355,1 Mkr á öðru ári.

Auðvitað getur það gerst að stærra hlutfall umferðarinnar verði á afsláttarkjörum en hér er áætlað en þá eru einnig líkur á að umferðin verði meiri en ella þannig að ekki er víst að það hafi afgerandi áhrif á tekjurnar.

Það má fljóta með að tekjur á fyrsta ári verða meiri en sem nemur umferðinni á því ári vegna þess að ferðir eru seldar fyrirfram þegar vegfarendur kaupa fleiri en eina ferð í einu á afsláttarkjörum.  Hér er ekki reiknað með þessum áhrifum enda skipta þau litlu máli í heildarsamhenginu.

Umfjöllun FÍB:

 

  • FÍB slengir fram hinum og þessum tölum í umfjöllun sinni sem engin leið er að skilja hvernig fundnar eru út.  Hins vegar virðist sem aldrei sé gerð tilraun til að áætla hversu miklar árlegar tekjur verða af veggjaldinu.  Í það minnsta er það ekki sett fram í umfjöllun FÍB.

 

Jón Þorvaldur Heiðarsson

Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri

og sérfræðingur á RHA

 

 

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744