Þingeyingar !Aðsent efni - - Lestrar 592
Á undanförnum árum hefur Lionsklúbbur Húsavíkur komið að forvarnarstarfi í heilbrigðismálum. Á síðasta starfsári stóð klúbburinn fyrir átaki í skimun á sykursýki með mælingum á blóðsykri einstaklinga á Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Reykjahlíð og Laugum. Félagar í Lionsklúbbnum stóðu að þessum mælingum og fengu aðstoð frá heilbrigðisstarfsfólki á hverjum stað. Niðurstaða þessarar skimunar var sú að margir fengu viðvörun um háan blóðsykur og fleiri en einn greindust með sykursýki á frumstigi, þannig að segja má að þetta skimunarátak hafi borið árangur og stendur til að endurtaka það 10. desember næstkomandi
Lionsklúbbur Húsavíkur hefur í allmörg ár haft áhuga á að standa fyrir hvatningarátaki varðandi skimun fyrir ristilkrabbameini sem er lúmskur vágestur og gerir sjaldan boð á undan sér en á Íslandi greinast að meðaltali 112 einstaklingar á hverju ári með slíkt krabbamein. Miklu skiptir varðandi framtíðarhorfur að greina þetta krabbamein á frumstigi. Niðurstaða starfshóps á vegum Landlæknis skilaði skýrslu árið 2002 og mælti þá með að skimun yrði hafin fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi á Íslandi. En af einhverjum ástæðum hefur sú skimun aldrei hafist. Þetta mál hefur hins vegar hlotið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum undanfarin ár og hefur því einn og einn einstaklingur leitað til heilbrigðisstofnanna upp úr fimmtugsaldri og óskað eftir skimun.
Til að vekja vitund Þingeyinga fyrir nauðsyn slíkrar skimunar, hafa Lionsklúbbur Húsavíkur og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga hafið samstarf til að hrinda af stað skipulagðri ristilspeglun. Áætlunin miðast við að byrjað verði árið 2012 og verði það ár öllum konum og körlum 55 ára boðin ókeypis ristilspeglun og þannig byrjað á þeim Þingeyingum sem fæddust á árinu 1957. Næsta ár eða 2013 er komið að þeim sem fæddust 1958 og síðan koll af kolli. Ætlunin er að þetta verkefni standi í fimm ár til reynslu og verði þá endurmetið.
Rétt er að taka fram að nýlega voru tekin í notkun mjög fullkomin speglunartæki við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík, sem voru keypt fyrir gjafafé ýmissa félagasamtaka, einstaklinga og fyrirtækja og eru því aðstæður góðar til slíkrar skimunar á Húsavík. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga mun sjá um skipulagningu og framkvæmd speglunar en Lionsklúbbur Húsavíkur verður fjárhagslegur bakhjarl og hefur klúbburinn leitað eftir fjárframlögum frá fjölmörgum aðilum og hafa undirtektir verið afar jákvæðar.
Í byrjun næsta árs munu allir einstaklingar fæddir 1957 sem búsettir eru á þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga fá boðsbréf með nánari upplýsingum um framkvæmd málsins.
Kær kveðja,
Lionsklúbbur Húsavíkur og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga