Tap fyrir Þrótti NesÍþróttir - - Lestrar 511
Einn leikur fór fram í Mizunodeild kvenna í gær þegar Völsungur fékk Þrótt Nes í heimsókn í Íþróttahöllina á Húsavík.
Þróttur Nes var fyrir leikinn í öðru sæti með 18 stig á meðan Völsungur sat í fimmta sæti með 5 stig.
Þróttur Nes hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu og var nokkuð ljóst að þær ætluðu sér ekki að tapa öðrum leik í gær en Þróttur byrjaði leikinn á sigri í fyrstu hrinu 25-17. Liðin voru nokkuð jöfn til að byrja með en fljótlega fór Þróttur að ná tökum á leiknum og hægt og rólega ýttu þær heimastúlkum lengra og lengra frá sér.
Þróttur náði svo strax góðri forustu í annari hrinu en Þróttur var 4-0 yfir þegar Völsungur tekur sitt fyrsta leikhlé í hrinunni. Þróttur hélt ávalt góðu forskoti í hrinunni og fór að lokum með sigur 25-18. Það var sama saga í þriðju hrinu, Þróttur nær góðu forskoti þegar þær komast í 11-2. Þrátt fyrir góða baráttu hjá Völsungi þá reyndist þetta bil of mikið og fór svo að Þróttur hafði betur 25-21 og vann því leikinn 3-0.
Stigahæst í leiknum var Heiða Elísabet Gunnarsdóttir leikmaður Þróttar Nes með 11 stig, stigahæst í liði Völsungs var Sladjana Smiljanic með 10 stig.
Eftir leikinn er Þróttur Nes í 1.sæti með 21 stig eftir 8 leiki, stigi á undan Aftureldingu sem er í 2.sæti með 20 stig eftir 8 leiki. Völsungur er enn í 5.sæti með 5 stig eftir 7 leiki. (blakfrettir.is)