Soffía Anna: Hvers eiga aldraðir Íslendingar að gjalda?

Nú er árið 2010 eins og allir vita. Það er þó ekki að sjá að ráðamenn íslensku þjóðarinnar, sem þessa dagana berja sér á brjóst og segjast hafa gert allt,

Nú er árið 2010 eins og allir vita. Það er þó ekki að sjá að ráðamenn íslensku þjóðarinnar, sem þessa dagana berja sér á brjóst og segjast hafa gert allt, sem í þeirra valdi stendur til að slá skjaldborg um íslensku þjóðina, geri sér grein fyrir því.

 

Í síðasta greinarkorni mínu, sem birtist í Morgunblaðinu, sagði ég frá þeim ójöfnuði, sem virðist líðast í íslenskri öldrunarþjónustu. Á þeim ríflega mánuði sem liðinn er síðan það greinarkorn birtist, hefur ekkert gerst í öldrunarmálum í Þingeyjarsýslum! Þegar ég skrifa ekkert, þá meina ég í raun: ekkert sem vit er í, því eins og allir vita, var fjárlagafrumvarp ársins 2011 birt þann 1. október sl., og í því frumvarpi er lagt til að lögð verði niður 6 af 24 hjúkrunarrýmum á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

 

Þetta er lagt til í frumvarpi til fjárlaga, þrátt fyrir að hið háa ráðuneyti velferðarmála hafi viðurkennt að á þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga  og Dvalarheimilis aldraðra í Þingeyjarsýslum,  vanti hjúkrunarrými! Þetta er lagt til, þrátt fyrir að undirrituð hafi, við annan mann, farið á fund ráðamanna í hinu háa ráðuneyti, og reynt að gera þeim grein fyrir því ástandi, sem þegar hefur skapast í Þingeyjarsýslum vegna skorts á hjúkrunarrýmum í Hvammi, heimili aldraðra á Húsavík. Hvernig má þetta þá vera? Jú, mikið rétt, þarna er það pólitíkin sem ræður, og eins og allir vita er hún bölvuð tík!

 

Í áranna rás hefur hjúkrunarrýmum verið dreift um allt land, án tillits til þess hvort þeirra hefur verið þörf þar sem þau hafa verið sett niður. Núna, á tímum efnahagskreppu og peningaleysis, er ekki hægt að breyta því, og færa þau hjúkrunarrými til, sem ekki eru nýtt, og setja þau niður þar sem þeirra er þörf. Nei, það er betra að flytja fólkið, til þess að misvitrir stjórnmálamenn geti áfram barið sér á brjóst, og sagt að þeir hugsi um hag sinna heimabyggða! Hvað er eiginlega í gangi?

 

Er það virkilega þannig að ráðamenn íslensku þjóðarinnar séu veruleikafirrt og valdasjúk möppudýr, sem í raun ógna öryggi og sálarheill heillar þjóðar með „afrekum“ sínum? Hvað er til ráða? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Ég velti upp þeirri spurningu hér og nú, hvort aldraðir Íslendingar standi virkilega frammi fyrir þeim hræðilega möguleika árið 2010, að þurfa að flytjast hreppaflutningum af heimilum sínum, og það jafnvel milli landshluta, vegna þess að ekki eru til peningar til að sinna þörfum þeirra á heimaslóðum?

 

Það lítur í það minnsta út fyrir að sú verði raunin hvað varðar þá öldruðu einstaklinga, sem dvelja í dvalarrýmum í Hvammi, heimili aldraðra á Húsavík, en þurfa samkvæmt vistunarmati að flytjast í hjúkrunarrými. Það er ljóst að ráðuneyti velferðarmála lætur sig málið ekki varða, þar sem fjárheimildir til fjölgunar hjúkrunarrýma á svæðinu eru engar, og betra að hafa ónýtt hjúkrunarrými hér og þar, en að sinna þörfum lifandi fólks.

 

Ég neita að trúa því að sú sé raunin! Í næstu viku, nánar til tekið þann 20. október, verður haldinn fundur með aðstandendum þeirra sem búa í Hvammi á Húsavík. Á þeim fundi verður aðstandendum greint frá þeirri stöðu, sem uppi er hjá okkur, ásamt því að reynt verður að undirbúa þá fyrir það sem framundan er.

 

Ég óska þess að allir, sem láta sig málefni aldraðra varða, standi nú saman og geri ráðamönnum grein fyrir því að svona gera menn einfaldlega ekki!

 

Soffía Anna Steinarsdóttir.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744