Skipulag Húsavíkur og nágrennis II - HafnarsvæðiAðsent efni - - Lestrar 526
Umferð og starfsemi
Í aðdraganda vinnu við nýtt aðalskipulag, árið 2007, vann Alta forsendugreiningu fyrir miðbæjar- og hafnarskipulag Húsavíkur. Ástæður greiningarinnar voru m.a. þær breytingar sem orðið hafa á starfsemi á hafnarsvæðinu, frekari áform um uppbyggingu þar og áform um byggingu álvers á Bakka.
Í greiningarvinnunni var leitað bæði til hagsmunaaðila við höfnina sem og almennings. Í skýrslu sem skýrir frá niðurstöðum forsendugreiningarinnar eru tilgreindar þarfir hagsmunaaðilanna.
Þó dregið hafi úr smábátaútgerð hér á Húsavík á undanförnum árum þá hafa orðið breytingar frá því að forsendugreiningin var unnin og aftur færst ákveðið líf í hana m.a. vegna strandveiðanna og að grásleppuveiðar hafa aukist aftur. Þarfir smábáta útgerðarinnar hafa þó sennilega ekki breyst frá því að greiningin var unnin. Smábátaútgerðin hefur ennþá þörf fyrir aðgengi að bryggjunni og verbúðum eða skúrum, bryggjuplássi og geymsluaðstöðu fyrir t.d. veiðarfæri, kerrur, bíla og fiskikör.
Sjávartengd ferðaþjónusta eins og hvalaskoðunin hefur verið vaxandi atvinnugrein undanfarin ár. Hvalaskoðunarfyrirtækin tvö hafa þörf fyrir húsnæði fyrir miðasölu ,húsnæði fyrir skrifstofur, snyrtingar, yfirhafnir og annað sem fylgir starfseminni, aðgengi að bryggju, bryggjupláss og öruggar umferðarleiðir fyrir farþega frá miðasölu að báti.
Þarfir annarra aðila eru ekki skilgreindar með sama hætti í áður nefndri skýrslu en þar er t.d. um að ræða fiskvinnslu og flutninga. Hvoru tveggja fylgir umferð flutningabíla og lyftara og þörf fyrir geymslupláss.
Niðurstöður íbúafundanna sem haldnir voru árið 2007 í tengslum við forsendugreininguna voru á þá leið að íbúar vilja sjá hvort tveggja, smábátaútgerðina og sjósæknu ferðaþjónustuna, á hafnarsvæðinu, og vilja að þetta tvennt spili saman. Höfundar forsendugreiningarinnar, sem eru fagaðilar á sviði skipulagsmála, taka undir það sjónarmið þar sem þeir leggja til að skipulag hafnarsvæðisins taki mið af því að samspili sjávartengdrar ferðaþjónustu og smábátaútgerðar verði haldið við á Hafnarstéttinni.
Í þéttbýlisuppdrætti nýja aðalskipulagsins sem er til umsagnar hjá Skipulagsstofnun er gert ráð fyrir að hafnarsvæðið sem í eldra skipulagi var skilgreint sem athafnasvæði verði athafna- og þjónustusvæði. Þarna er verið að aðlaga aðalskipulagið að þeirri starfsemi sem hefur skotið rótum á hafnarsvæðinu s.s. safnastarfsemi, veitingahúsarekstur og þekkingarstarfsemi. En um leið og þessi breyting er gerð má spyrja sig hvaða starfsemi mun í kjölfarið geta fest rætur á hafnarsvæðinu, hvaða pláss mun hún taka og mun hún þrengja enn frekar að núverandi starfsemi jafnvel þannig að hún þurfi að víkja. Og þá verður hver að svara fyrir sig hvort það sé sú þróun sem við viljum sjá.
Varðandi umferð um svæðið er lagt til að afmarkað verði á skýran hátt umferð gangandi og akandi vegfarenda á hafnarsvæðinu. Jafnframt verði bílastæði vel afmörkuð og að bílastæði fyrir langferðabíla verði ofan bakka nema til að hleypa út farþegum. Það er ljóst að mikil þörf er á þessu því eins og staðan er í dag þá ræðst notkun hafnarsvæðisins og umferð umþað í raun af frumskógarlögmálum. Þeir sem þurfa að ferðast um það eða nota, gera það á sinn hátt sem getur verið truflandi fyrir aðra og skapað hættu, sérstaklega yfir sumartímann þegar umferðin um svæðið er hvað mest. Mikil umferð stórra farartækja eins og rútubifreiða, gámaflutningar og fiskflutningar blandast miklum fjölda gangandi vegfarenda sem annaðhvort eru að fara í hvalaskoðun eða koma til að anda að sér stemmingunni sem fylgir smábátaútgerðinni og öðru lífi við höfnina. Öll þessi starfsemi sem þrífst á svæðinu gerir það áhugavert. En um leið skapar umferðin sem fylgir starfseminni stærsta vandamál svæðisins og er brýnt að það verði leyst. Á síðasta sveitarstjórnarfundi var lögð fram tillaga hafnarnefndar um að fá starfsmenn til að leiðbeina og stýra umferð um hafnarsvæðið í sumar sem segir að vandamálið er stórt en er í raun aðeins lítill plástur á blæðandi sár.
Á fyrirhuguðu aðalskipulagi er áætluð vegtenging í gegnum hafnarsvæðið út á nýjan hafnargarð og áfram að fyrirhuguðu álverssvæði á Bakka. Það er erfitt að sjá annað en að sá vegur sem mun verða tengibraut samkvæmt skipulaginu muni verða enn ein áskorunin í þessu mikla púsluspili sem hafnarsvæðið er, bæði vegna þeirrar umferðar sem fyrir er en einnig vegna hámarkshraða því tengibrautir eru öllu jöfnu með 50 km hámarkshraða. Aftur komum við að því hver verða áhrifin á Húsavík eða í þessu tilviki hafnarsvæðið ef allt skipulag framtíðarinnar miðast við þarfir álvers eða verksmiðju jólasveinsins í stað þess að taka mið af grunnþörfum íbúa og þeirra atvinnugreina sem eru þegar til staðar? Hægt væri að gera mikið fyrir svæðið með því að deiliskipuleggja það þar sem haft væri í huga að allar þær ólíku atvinnugreinar sem þar eru til staðar fái sitt olnbogarúm án þess að hafa hamlandi áhrif á aðrar.
Annað atriði sem hefur áhrif á hafnarstéttina á sumrin er umferð rútubifreiða um svæðið. Í staðinn fyrir að hafnarstéttin líti út eins og umferðarmiðstöð væri hæglega hægt að beina umferð þeirra á bílastæði bæjarins sem eru í lítilli eða engri notkun yfir sumartímann líkt og bílastæðin við grunnskólann. Þaðan er aðeins 250 metra gönguferð niður að kirkjunni. Á þessari leið gæti ferðafólkið jafnvel uppgötvað aðrar hliðar á bænum, líkt og við sjálf gerum þegar við ferðumst til útlanda. Nú þegar hefur sú aðferð að beina húsbílum og fólksbílum á bílastæðin við Stóragarð og við íþróttahöllina haft góð áhrif dregið úr umferð þeirra um hafnarsvæðið.
Útlit og skipulag
Auk þess sem fjallað er um starfsemina við hafnarsvæðið í greinargerð aðalskipulagsins er fjallað um sérkenni umhverfisins sem einkennist m.a. af ákveðinni gerð húsa og mishæðum sbr. tröppurnar fyrir neðan kirkju og Skansinn. Lögð er áhersla á að haldið verði í hvort tveggja í nýju skipulagi.
Frábær uppbygging hefur verið á hafnarsvæðinu undanfarin ár og er þar hægt að nefna hús Langaness þar sem Þekkingarsetur Þingeyinga, Náttúrustofa Norðausturlands, Háskóli Íslands og Heilbrigðiseftirlitið eru með starfsemi, einnig uppbyggingu í kringum hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursiglingu. Allir sjá gæðin í viðhaldi og endurgerð þessara bygginga og fáir vildu vera án þeirra. Þessi hús ásamt öðrum húsum sem þar standa eins og Flókahúsinu, Helguskúr og litlu geymsluskúrum smábátasjómannanna mynda ákveðna heild og styðja við götumynd Hafnarstéttarinnar. Í drögum að greinargerð ALTA vegna aðalskipulagsins segir um þá: „Skúrarnir þrír vitna um gamla tíma og eru mikilvægur hluti af landslagi og bæjarmynd hafnarsvæðisins. Þá ætti að varðveita ásamt athafnarými til nota fyrir smábátaútgerð.” Að auki kemur fram í greinargerð Alta að að niðurrif bygginga, án þess að fyrir liggi hvað komi í staðinn eigi eingöngu að eiga sér stað ef öryggissjónarmið kalla á það.
Auðvitað má deila um verðmæti bæði bygginga og sögulegra tenginga þeirra en húsin hafa öll sína sögu að segja um atvinnulíf á Húsavík og eru vinsælt myndefni ferðamanna sem eiga leið um svæðið auk þess að hafa hlutverki að gegna m.a. í tengslum við Mærudaga. Sem þjóð með stutta byggingasögu er mikilvægt að skilja gæði þess að geta lesið söguna í götumynd bæjanna.
Mikil barátta hefur verið annarstaðar fyrir því að halda í gömul og áhugaverð hús og eru það oft þessi gömlu hús sem draga að ferðamenn og íbúa. Mjög mörg dæmi eru um þetta á Norðurlöndunum og víðar. Skuld, Gamli Baukur, Salka og Pakkhúsið eru góð dæmi um þetta hér á Húsavík. En ef umræðan er tekin verður niðurstaðan kannski sú að þessi hús skipta okkur litlu máli og kannski er gott að rýmka til fyrir nýjum byggingum en það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvað okkur finnst um þetta áður en húsin hverfa.
Það er mjög mikilvægt fyrir samfélag að fjölbreytt starfsemi þrífist og hafi möguleika til að dafna og er það líka til framdráttar fyrir ferðamennsku á svæðinu að þar sé fjölbreytt og sýnileg atvinnulíf. Það þykir eftirsóknarvert að svæði séu lifandi og starfsemi þar í gangi en ekki aðeins uppstilling fyrir ferðamanninn. Höfnin á Húsavík er þannig mjög áhugaverð með alla þá starfsemi sem þar er í gangi og í nýju aðalskipulagi er bent á að: „Við útfærslu skipulags og mótun umhverfis verði haldið í tengsl búsetu við sjóinn og sveitirnar, s.s. með varðveislu bygginga og annarra mannvirkja sem bera vitni sambúð manns og náttúru.“
Undirritaðar geta heilshugar tekið undir þetta ásamt því að vera sammála sérfræðingum Alta um að við ættum í lengstu lög að forðast að breyta umhverfinu þannig að það verði að tilbúnu ferðamannaumhverfi sem hægt er að sjá hvar sem er í heiminum. Við ættum að leggja á herslu á að halda í það sem greinir okkur frá öðrum, vera trú uppruna okkar og sjálfsmynd samfélagsins og leyfa þeirri starfsemi sem enn er í gangi við höfnina að halda þar áfram.
Höfundar:
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt FÍA, og Helena Eydís Ingólfsdóttir, MPA nemi í opinberri stjórnsýslu.