Sjálfboðastarf í þágu samfélagsinsAðsent efni - - Lestrar 714
Sjálfboðastarf í þágu samfélagsins er heiti á samstarfsverkefni unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Húsavík (Náttfari), Mývatnssveit (Mývargar) og DLRG í Þýskalandi en það eru vatnabjörgunarsamtök.
7-16 ágúst næstkomandi tökum við á móti þjóðverjunum en stefnum svo á að heimsækja þá að ári. Markmiðið með þessu verkefni er að byggja upp sjálfstæða og sterka einstaklinga sem eru tilbúnir til að vinna í sjálfboðavinnu fyrir samfélagið. Þau eiga að vera skipulögð, geta bjargað sér og öðrum við sem flestar aðstæður og geta unnið sem ein heild í hóp. Dagskráin er mjög metnaðarfull og styður krakkana í því að ná markmiðunum.
Verkefnið er sett þannig upp að við bjóðum Þjóðverjunum hingað og þurfum við að bera allan kostnaðinn, bæði af ferðum og dvöl þeirra hér. Þetta er því mjög kostnaðarsamt fyrir okkur en Ungt Fólk í Evrópu styður veglega við verkefnið en betur má ef duga skal. Til að safna peningum ákváðu krakkarnir að safna áheitum og hjóla úr Mývatnssveit til Húsavíkur um Þeistareyki. Þau stefna einnig á að selja popp og pönnukökur á Mærudögunum.
Þann 7 júlí hjóluðu þau á 2-5 hjólum í einu og voru þau um 6 klst á leiðinni með samhristings stoppi á Þeistareykjum. Það gekk vel að hjóla en þó urðu nokkur afföll á hjólum en það biluðu 3 hjól í ferðinni svo það er ljóst að krakkarnir tóku vel á því.
Það var gaman að sjá að í upphafi voru þetta 2 hópar sem voru að hjóla en þegar við komum til Húsavíkur þá var þetta orðin einn þéttur og góður hópur.
Við þökkum öllum, fyrirtækjum og einstaklingum, sem sjá sér fært um að styðja við verkefnið kærlega fyrir aðstoðina.
Hér koma nokkrar myndir úr ferðinni:
Börkur að sýna listir sínar.
Krakkarnir í traust leik, Olivia lætur sig falla aftur á bak.
Inga lætur sig falla aftur á bak og hin grípa hana.
Börkur enn að sýna listir sínar.
Hilmar, Gunnar og Brynjar að hjóla.
Hópmynd við Höskuldsvatn.
Hópmynd þegar komið var til Húsavíkur.
Ljósmyndirnar tók Pétur Bjarni Gíslason.