Sannleikurinn í ÁrbótarmálinuAðsent efni - - Lestrar 1157
Inngangur
Í Fréttablaðinu mánudaginn 22. nóvember var birt svokölluð "fréttaskýring" með yfirskriftinni: Bætur
til meðferðarheimilisins Árbótar. Frétt þessi virðist þannig til komin að Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sem
óánægður er með fyrirhugaða skerðingu á fjárframlögum til Barnaverndarstofu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 hefur
séð sér þann kost vænstan að leka upplýsingum til fjölmiðla um samkomulag sem gert var á milli Meðferðarheimilisins að
Árbót annars vegar og hins vegar Barnaverndarstofu, félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Með framangreindum samningi var
samið um að greiddar yrðu kr. 30 milljónir vegna lokunar Meðferðarheimilisins Árbótar.
Meðferðarheimilið að Árbót í Aðaldal var rekið í nær aldarfjórðung af hjónunum Snæfríði
Njálsdóttur og Hákoni Gunnarssyni. Voru vistuð þar börn og unglingar á aldrinum 12-18 ára og náðist afar góður árangur
við meðferð þeirra.
Í "fréttaskýringunni" er það gert tortryggilegt að gert hafi verið samkomulag við rekstraraðila þegar Barnaverndarstofa ákvað
einhliða að rifta þeim samningi sem í gildi var um rekstur meðferðarheimilisins að Árbót. Ég tel að rétt hefði verið af
blaðamönnunum að fá sjónarmið annarra en Braga Guðbrandssonar áður en" fréttaskýringin" var skrifuð. Það hefði getað
leitt sannleikann í ljós.
Forsaga
Ef litið er aftur til ársins 1997, en þá, þann 17. febrúar, var undirritaður
samningur um rekstur meðferðarheimilisins að Árbót í Aðaldal. Kom sá samningur í stað fyrri samnings. Í samningi þessum var gert
ráð fyrir að í Árbót yrðu vistaðir 6 unglingar á aldrinum 13 til 16 ára. Fljótlega eftir gerð þessa samnings jókst
mjög ásókn í að vista börn hjá hjónunum í Árbót. Var brugðist við þessari auknu eftirspurn með þeim
hætti að þau keyptu jörðina Berg í Aðaldal í árslok 1998 og var þar sett upp meðferðarheimili, sem rekið var í tengslum
við heimilið að Árbót. Hófst starfsemin að Bergi þann 4. apríl 1999, en heimilið var formlega opnað þann 22. maí 1999.
Bréf Páls Péturssonar dags. 5. júlí 2002
Í bréfi þáverandi
félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, til forsvarsmanna Árbótarheimilisins dags. 5. júlí 2001 segir:
"Með vísan til viðræðna við yður í mars sl. um endurbætur á húsnæði meðferðarheimilanna að Árbót og
Bergi vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:
Það er mat ráðuneytisins, að fengnu áliti Barnaverndarstofu, að húsakostur meðferðarheimilisins að Árbót/Bergi sé ekki
sambærilegur við þann sem almennt gerist á meðferðarheimilum á vegum Barnaverndarstofu. Ráðuneytið telur því rétt að beita
sér fyrir auknu fjárframlagi í því skyni að gera yður kleift að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir að Árbót
og Bergi. Jafnframt telur ráðuneytið rétt að við þær framkvæmdir verði gert ráð fyrir stækkun rekstrareiningar að Bergi um
tvö rými þannig að aukinni rekstrarhagkvæmni sé náð. Sá samningur sem nú er í gildi milli yðar annars vegar og Barnaverndarstofu
hins vegar gerir ráð fyrir rekstarframlagi sem nemur ríflega 48 mkr. á verðlagi ársins í ár. Félagsmálaráðuneytið
stefnir að því að frá byrjun árs 2002 taki nýr samningur gildi sem geri ráð fyrir 13 mkr. viðbótarframlagi vegna fjölgunar
rýma og nauðsynlegra framkvæmda".
Nýr samningur 16. janúar 2002
Nýr samningur um rekstur meðferðarheimilisins í
Árbót er dagsettur 16. janúar 2002. Í þeim samningi var gert ráð fyrir rekstri að Árbót og á Bergi. Á heimilunum skyldu
vistaðir 12 unglingar á aldrinum 13 til 18 ára og starfsmenn skyldu ekki vera færri en 15 í fullu starfi þar með taldir meðferðaraðilar. Umsamin
árleg greiðsla ríkissjóðs vegna þessa samnings var 65.270.000 krónur. Samningur þessi gilti frá 1. janúar 2002 til 31. desember
2011.
Samkomulag Barnaverndarstofu og Árbótar 18. maí 2004
Þann 18. maí 2004 var undirritað
samkomulag á milli Barnaverndarstofu og rekstraraðila meðferðarheimilisins að Árbót "vegna afnota af húsnæði meðferðarheimilisins
Árbótar og reksturs þess vegna skólahalds unglinga". Þá höfðu eigendur Árbótar útbúið skólastofu og
lögðu til aðstöðu til kennslu á 1. hæð nýbyggingar meðferðarheimilisins. Barnaverndarstofa lofaði samkvæmt samningi þessum að
greiða 700.000 krónur á ári vegna þessa og var innifalið í þeirri fjárhæð rafmagn og hitakostnaður svo og kostnaður vegna
síma og netnotkunar nemenda. Þessi samningur gilti vegna kennslu ársins 2004 og átti að gilda meðan ekki yrðu breytingar á forsendum samkomulags
Barnaverndarstofu og Hafralækjarskóla um tilhögun kennslu.
Bréf Braga Guðbrandssonar til félagsmálaráðuneytis 1. nóvember 2004
Þann 1.
nóvember 2004 ritar Bragi Guðbrandsson bréf til félagsmálaráðuneytisins. Þar leggur hann fram beiðni um framlag vegna húsaleigugreiðslu
til rekstraraðila meðferðarheimilanna að Árbót og Bergi vegna fjárlaga 2005. Bréf hans hljóðar svo:
"Við undirbúning fjárlagafrumvarps ársins 2005 sótti Barnaverndarstofa um fjárframlag til þess að geta greitt rekstraraðila
meðferðarheimilanna að Árbót og Bergi í Aðaldal afgjald vegna afnota af húsnæði og annarri aðstöðu vegna rekstrarins. Erindið
hefur ekki ratað í fjárlagafrumvarpið og er það nú ítrekað af ástæðum sem nú verða raktar.
Málavextir eru þeir að rekstraraðili hefur staðið í verulegri uppbyggingu og endurnýjun á húsakosti meðferðarheimilanna, sem lokið
var við á síðasta ári. Var í þessar framkvæmdir ráðist eftir viðræður við
félagsmálaráðuneytið og vilyrði þáverandi félagsmálaráðherra, sbr. bréf ráðuneytisins til rekstraraðila
meðferðarheimilisins dags. 5. júlí 2001. Í framhaldi af þessum áformum var gerður nýr rekstrarsamningur við meðferðaraðila með
gildistöku í janúar 2002 þar sem rýmum var fjölgað og rekstrarframlag hækkað til samræmis við það. Ekki var gert ráð
fyrir sérstöku afgjaldi vegna húsnæðis í þeim samningi enda ekki gert ráð fyrir henni í fjárheimild Barnaverndarstofu vegna
hans.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd þjónustusamnings Barnaverndarstofu við meðferðarheimilið á Torfastöðum frá
september sl. kemur fram það álit að óhjákvæmilegt sé að rekstraraðili, sem sjálfur leggur til húsnæði og aðra
aðstöðu, fái sambærilegt afgjald og stofan greiðir til þriðja aðila, t.d. sveitarfélögum, sem leggja til slíka aðstöðu
vegna annarra meðferðarheimila. Þannig ákvarðast t.d. verulegur hluti þeirrar fjárhæðar sem Ríkisendurskoðun metur að muni á
þjónustusamningum Torfastaða annars vegar og samanburðarheimila hins vegar, af þeirri fjárhæð sem Barnaverndarstofa hefur greitt vegna
aðstöðusköpunar til annarra aðila en rekstraraðila meðferðarheimila, þ.e.a.s Eyjafjarðarsveitar og samtakanna Barnaheilla í þessum tiltekna
samanburði.
Í ljósi ofangreinds telur Barnaverndarstofa óhjákvæmilegt að sjá til þess að rekstraraðili að Árbót og Bergi fái
greitt endurgjald vegna afnota að(svo) húsnæði og annarri aðstöðu sem rekstraraðili leggur til. Samkvæmt upplýsingum rekstraraðila hafa
fjárfestingar í umræddri aðstöðu numið 43 mkr. Barnaverndarstofa telur eðlilegt að árlegt framlag ætti því að nema kr. 4,3
mkr eða sem svarar 10% stofnkostnaðar. Hér er þess farið á leit að Barnaverndarstofa fái viðbótarfjárveitingu til að unnt sé
að standa undir þessum kostnaði".
Viðauki við rekstrarsamning dags. 12. janúar 2005
Þann 12. janúar 2005 var undirritaður viðauki við samning um rekstur meðferðarheimilisins Árbótar í Aðaldal, dags. 16. janúar 2002.
Hann var svohljóðandi:
"Með tilvísun til samnings Barnaverndarstofu annars vegar og rekstraraðila meðferðarheimilisins að Árbót hins vegar, dags. 16. janúar 2002, svo og
með hliðsjón af samkomulagi aðila dags. 18. maí 2004 um afnot af húsnæði meðferðarheimilisins vegna skólahalds vistunglinga, greiðir
Barnaverndarstofa árlega sérstakt afgjald vegna afnota af húsrými og annarri aðstöðu sem rekstaraaðili leggur í té til viðbótar
rekstrarframlagi samkvæmt 13. gr. samningsins. Tilefni afgjaldsins eru endurbætur og viðbótarhúsnæði, sem byggt hefur verið frá því
að samningur aðila tók gildi, og fellst í stækkun húsakynna að Bergi og viðbyggingu við meðferðarheimilið að Árbót.
Barnaverndarstofa skal greiða rekstraraðilum 3.600 þúsund árlega vegna aðstöðunnar. Innifalið í þeirri fjárhæð er
kostnaður vegna viðhalds og annars reksturs, s.s. rafmagns og hita. Fjárhæð þessi skal taka breytingum árlega í samræmi við vísitölu
neysluverðs, sem var í desember 2004, 239,0 stig.
Viðauki þessi tekur gildi frá og með 1. janúar 2005 og gildir til loka samningstíma aðila, 31. desember 2011. Um önnur atriði fer samkvæmt
samningi aðila dags. 16. janúar 2002".
Þennan samningsviðauka undirrituðu umbjóðendur mínir, Snæfríður Njálsdóttir og Hákon Gunnarsson, ásamt Braga
Guðbrandssyni, forstöðumanni Barnaverndarstofu.
Nýr rekstrarsamningur dags. 13. júní 2008
Áður en framangreindur samningur dags. 16.
janúar 2002, sem gilda átti til 31. desember 2011, hafði runnið sitt skeið, var gerður nýr samningur dags. 13. júní 2008. Með þeim
samningi var lagður niður reksturinn að Bjargi. Í samningnum var sú breyting jafnframt gerð að meðferðarheimilið í Árbót átti
framvegis að veita þeim ungmennum sérhæfða meðferð sem áttu við að stríða hegðunarerfiðleika, tilfinningalegan eða
geðrænan vanda, afbrotahneigð og/eða vímuefnavanda. Jafnframt var gert ráð fyrir að á heimilinu yrðu vistaðir afbrotaunglingar, sem hlotið
hefðu dóm og afplánuðu refsingu sína í samræmi við ákvæði samkomulags Barnaverndarstofu og Fangelsismálastofnunar. Gert var
ráð fyrir að á heimilinu yrðu vistaðir 6 til 7 unglingar, sem að jafnaði skyldu vera á aldrinum 14 til 18 ára og að jafnaði skyldu ekki
færri en 10 starfa við heimilið í fullu starfi á hverjum tíma. Vegna þessa samnings skyldi ríkissjóður greiða kr. 76.000.000 á
ári og var gert ráð fyrir að kostnaður skiptist á þann hátt að launagjöld næmu kr. 55.000.000, önnur rekstrargjöld kr.
17.500.000 og aðstöðugjald kr. 3.500.000. Við gildistöku samnings þessa féllu úr gildi samningur dags. 16. janúar 2002, ásamt viðauka
við hann dags. 12. janúar 2005 og samkomulag dags. 18. maí 2004 vegna skólahalds í Árbót. Engar bætur voru greiddar vegna lokunar Bergs
þrátt fyrir að tvö og hálft ár væru eftir af þeim samningi er heimilið varðaði.
Framangreindur samningur dags. 13. júní 2008 átti að gilda frá 1. september 2008 til 31. ágúst 2012. Við lok samningstímabilsins átti
samningurinn að framlengjast um 5 ár ef annar hvor aðilinn hefði ekki sagt honum upp með sannanlegum hætti og uppsögn borist gagnaðila með minnst 6
mánaða fyrirvara. Þá var ákvæði í samningum um að "komi til ófyrirséðra breytinga sem, að mati annars eða beggja
samningsaðila, raski forsendum samnings þessa, getur hvor aðili um sig óskað endurskoðunar eða uppsagnar samnings. Hér getur t.d. verið um að
ræða að eftirspurn eftir þjónustu meðferðarheimilisins verði til muna minni en áætlað er eða að þær breytingar verði
á persónulegum högum og aðstæðum rekstraraðila að honum reynist ókleift að sinna skyldum sínum. Uppsagnarfrestur skal þá vera 6
mánuðir".
Bréf Braga Guðbrandssonar dags. 16. nóvember 2009
Þann 16. nóvember 2009 barst hjónunum
í Árbót bréf frá forstjóra Barnaverndarstofu. Í bréfi þessu vísar hann til fundar aðila þann 6. nóvember 2009 og
þar hafi hann farið yfir ástæður þess að rétt væri að loka meðferðarheimilinu að Árbót. Nefndi hann að verulega
hefði dregið úr eftirspurn eftir meðferðarvistun að Árbót og ekkert benti til að viðsnúningur yrði heldur þvert á móti
þá taldi hann óhjákvæmilegt að eftirspurn myndi minnka. Þá mætti ætla að meint kynferðisafbrot starfsmanns heimilisins,
ákæra og væntanlegur dómur myndi verða til þess fallinn að draga úr áhuga foreldra og starfsfólks barnaverndarnefnda á að vista
börn í Árbót. Þá hafi hann upplýst að borist hefðu tilmæli barnaverndarstarfsmanna af höfuðborgarsvæðinu um að
komið yrði á fót langtímameðferðarheimili sunnan heiða í meiri nálægð við starfssvæði nefndanna. Taldi Bragi
Guðbrandsson að stofnuninni væri ekki stætt á öðru en verða við þeim óskum sem fyrirsjáanlega hefði áhrif á vistanir
í Árbót. Í bréfi Braga Guðbrandssonar segir svo: "Með hliðsjón af ofangreindu lét undirritaður í ljós það
álit að forsendur fyrir áframhaldandi starfsemi meðferðarheimilisins í Árbót væru við það að bresta. Þannig mætti
reikna með því að Barnaverndarstofa yrði tilneydd til að segja upp gildandi þjónustusamningi, sbr. ákvæði 3. mgr. 8. gr. samnings aðila
dags. 13. júní 2008, með sex mánaða fyrirvara". Óskaði hann eftir að starfslok meðferðarheimilisins yrðu sameiginleg ákvörðun
samningsaðila eða að frumkvæði rekstraraðila ef það þætti æskilegra af þeirra hálfu. Sagði hann Barnaverndarstofu í mun
að rekstraraðilum yrði fullur sómi sýndur og að fullt samkomulag yrði um starfslok heimilisins.
Drög að samningi um lok rekstrar dags. 15. desember 2009
Þann 15. desember 2009 sendi Barnaverndarstofa að
Árbót drög að samningi um lok reksturs meðferðarheimilisins að Árbót í Aðaldal. Í þessum drögum var gert ráð
fyrir að starfseminni lyki þann 1. júlí 2010. Í 3. gr. samningsdraganna var ákvæði um að samningsaðilar skyldu ganga frá uppgjöri
vegna starfseminnar fyrir 1. júní 2010. Síðan segir: "Eru aðilar sammála um að í uppgjöri skuli annars vegar tekið tillit til
fjárhagslegra skuldbindinga meðferðaraðila vegna reksturs heimilisins þann tíma sem fyrri samningi aðila var ætlað að vara, þ.e. til 31.
ágúst 2012, með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem meðferðaraðilar hafa undirgengist og eru sannanlega vegna reksturs þess". Síðan
átti við uppgjör að líta til þess hagræðis sem rekstraraðilar hefðu af því að draga úr rekstrinum fyrir 1.
júlí 2010. Í 4. gr. samningsdraganna var ákvæði þess efnis, að næðu samningsaðilar ekki samkomulagi fyrir 1. júní 2010
þá skyldi skipuð sérstök matsnefnd sem hefði það hlutverk að ákveða endanlegt uppgjör milli aðila vegna loka
meðferðarheimilisins og skyldi niðurstaða nefndarinnar vera bindandi fyrir aðila. Nefndina áttu að skipa einn aðili tilnefndur af Barnaverndarstofu, annar
tilnefndur af meðferðaraðila og sá þriðji skyldi tilnefndur af félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
Kröfur og rökstuðningur rekstraraðila vegna samningsrofa.
Þessum samningsdrögum var að
sjálfsögðu hafnað enda fráleitt að ríkið hefði tvo menn í matsnefndinni en Árbót einn. Þann 29. desember 2009 var
fyrirhugaðri uppsögn samningsins mótmælt en sett fram sú tillaga að aðilar sættust á samningslok miðað við 1. júlí 2010 og
Barnaverndarstofa innti af hendi greiðslur samkvæmt samningnum til 1. ágúst 2011, eða helming þess tíma sem eftir stæði af samningnum við lokun
heimilisins. Uppsögn samningsins barst síðan frá Barnaverndarstofu þann 30. desember 2009. Í því bréfi gætti þess misskilnings
á kröfugerðinni að Barnaverndarstofa taldi að krafan næmi á annað hundrað milljónum króna. Þessi misskilningur hefur á einhvern
hátt ratað inn í svokallaða fréttaskýringu Fréttablaðsins. Hið rétta er að gert var ráð fyrir starfseminni í
Árbót til 1. júlí 2010, en krafan var um greiðslur frá 1. júlí 2010 til 1. ágúst 2011 eða í 13 mánuði eftir
að starfseminni lyki. Sú krafa nam rúmlega 90 milljónum króna. Grundvöllur kröfunnar var að uppsögn samnings aðila væri
ólögmæt. Á því var byggt m.a. af hálfu Barnaverndarstofu að eftirspurn eftir vistmeðferð í Árbót hefði minnkað.
Hið rétta er að Barnaverndarstofa sjálf ræður því á endanum hvar unglingar eru vistaðir og getur því alfarið
stjórnað eftirspurninni. Það að þörfin hefði minnkað kemur illa heim og saman við þá yfirlýsingu forstjórans, að byggja
þyrfti nýtt heimili á Suðurlandi undir slíka starfsemi. Meint kynferðisafbrot starfsmanns heimilisins gat heldur ekki verið ástæða uppsagnar
samningsins og lokunar vistheimilisins. Í slíkum tilvikum er viðkomandi starfsmanni sagt upp störfum en starfseminni ekki hætt. Hefur þess einhvern tímann
verið krafist að kirkju sé lokað vegna meints kynferðisafbrots prests ? Ekki svo vitað sé til.
Eins og áður hefur komið fram þá nam kostnaður hjónanna í Árbót við stækkun og breytingar á heimilunum að Bergi og
Árbót alls kr. 43.000.000 miðað við verðlag í lok árs 2004. Það var til endurgreiðslu á þessum kostnaði sem Bragi
Guðbrandsson óskaði eftir árlegu viðbótarframlagi á fjárlögum að fjárhæð kr. 4.300.000. Gerði hann ráð fyrir
að þessar greiðslur yrðu inntar af hendi í 10 ár en á þeim tíma hefði byggingarkostnaður verið endurgreiddur verðtryggður en
vaxtalaust. Eins og áður er frá greint var þann 12. janúar 2005 undirritaður viðauki við samning um rekstur meðferðarheimilisins og var
þá umsamið að vegna stækkunar húsakynna á Bergi og viðbyggingar við meðferðarheimilið að Árbót fengju rekstraraðilar
meðferðarheimilisins árlega kr. 3.600.000 en jafnframt fengu þeir áfram árlega kr. 700.000 vegna skólahalds í Árbót á grundvelli
samkomulagsins frá 18. maí 2004. Þessi fjárhæð var síðan lækkuð í kr. 3.500.000 þegar samningurinn þann 13.
júní 2008 var gerður og niðurfellt samkomulagið frá 18. maí 2004. Mér reiknast svo til að vegna þessara framkvæmda hafi þau
fengið greiddar frá ríkinu alls kr. 23.150.000, þar af kr. 17.900.000 miðað við verðlag í desember 2004 og kr. 5.250.000 miðað við
verðlag í mars 2008. Um síðustu áramót voru skuldir vegna byggingaframkvæmda í bókhaldi félagsins kr. 48.152.278, allt tilkomið
vegna óska Barnaverndarstofu um framkvæmdir.
Fyrir utan það að sitja uppi með miklar skuldir vegna byggingaframkvæmda sem nýttust aðeins skamman tíma þá sátu hjónin í
Árbót uppi með það að vera launalaus frá 1. júlí 2010. Þau hafa sinn búrekstur, en hann höfðu þau fyrir og bætir
hann þeim ekki upp launamissinn. Vegna þessa alls taldi ég þau eiga rétt á því að ríkið greiddi þeim vegna þess
tjóns sem þau urðu fyrir við samningsrofin. Upphafleg krafa var fljótlega lækkuð verulega og að lokum var samið um að þau fengju greiddar kr.
30.000.000. Er það mín skoðun að sú fjárhæð hafi verið of lág en þau Snæfríður og Hákon vildu ganga að
þessu tilboði í stað þess að sækja sinn rétt fyrir dómstólum. Ég tel að samningur þessi hafi komist á í anda
þeirra tillagna sem Barnaverndarstofa setti fram í drögum að samkomulagi dags. 15. desember 2009. Þar var stungið upp á því að matsnefnd
þriggja manna hefði það hlutverk að ákveða endanlegt uppgjör milli aðila vegna slita á samningnum. Undir samkomulagið rituðu fyrst
hjónin í Árbót, síðan Bragi Guðbrandsson og loks ráðherrarnir tveir eftir að samkomulagið hafði verið samþykkt í
ríkisstjórn. Hafði frágangur málsins þá tafist verulega hjá Barnaverndarstofu og í ráðuneytum þeim sem að málinu
þurftu að koma.
Niðurlag
Eftir að svokölluð "fréttaskýring" var birt í Fréttablaðinu hafa
nokkrir aðilar þurft að tjá sig um efni og gerð samningsins á opinberum vettvangi. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Ólöf
Norðdal, tók til máls á Alþingi, ritstjóri Morgunblaðsins fjallaði um málið í leiðara, stjórnsýslufræðingur
fjallaði um málið í útvarpi og nú síðast ritstjóri Fréttablaðsins í leiðara. Allir þessir aðilar, ásamt
fréttamönnum sem um málið hafa fjallað, hafa gert það af yfirgripsmiklu þekkingarleysi á atvikum öllum. Sumir þeirra hafa eingöngu
reynt að nýta sér málið í pólitískum tilgangi, aðrir hafa eingöngu aflað upplýsinga frá Barnaverndarstofu, en enginn hefur
séð ástæðu til að leita eftir sjónarmiðum Árbótarhjónanna í málinu. Þeim er hér með komið á
framfæri.
Reykjavík 24. nóvember 2010
Björgvin Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður
lögmaður hjónanna í Árbót.