Samstaða og sjálfstæði í skólastarfiAðsent efni - - Lestrar 425
Á sumum sviðum lífsins eru margar leiðir færar að sama markmiði. Þetta á til dæmis við um menntun. Allir grunnskólar landsins stefna að sömu markmiðum. Markmiðum sem lagður er grunnur að í Aðalnámsskrá. Skólar hafa líka í grófum dráttum sömu verkfæri til að vinna með. Verkfærin eru kennslubækur og önnur námsgögn. En skólinn og starfsfólk í hverjum þeirra mótar ólík vinnubrögð og leiðir að þessum markmiðum. Þótt svo líti út sem að sömu aðferðir séu notaðar er ávallt mismunur á útfærslum.
Stundum þarf líka að finna nýjar leiðir eða útbúa nýtt efni til að takast á við sérstakar aðstæður eða nemendur. Til þess þarf skólafólk að standa saman og stundum fá stuðning utanfrá. Og staðreyndin er að þegar samstaða um vinnubrögð og starfsaðferðir festa rætur gengur starfið vel. Þegar samheldinn hópur vinnur út frá stefnu sem hann trúir á þá gengur vel. Skólinn skilar sínu menntunar- og uppeldishlutverki. Í samfélagi eins og okkar er mikilvægt að hver skóli verði sterk eining inn á. við. Það er mikilvægt að sveitafélagið standi með skólum þegar ráðgjöf og stuðning vantar. Og það er líka mikilvægt að þeir sem starfa innan skólanna geti skipst á skoðunum og hugmyndum við aðra skóla.
Lært af reynslu annarra og miðlað af sinni reynslu. Það er algengur misskilningur að þegar manneskja útskrifast með kennaramenntun hafi hún á takteinum ráð og hugmyndir til að bregðast við öllu sem uppá getur komið í skólastofunni næstu fjörutíu til fimmtíu árin. Þess vegna er nauðsynlegt að stuðla að samvinnu og samskiptum milli skóla í héraðinu. Leyfa hugmyndum og reynslu að flæða. Þannig að hver skóli í héraðinu geti skapað sína sérstöðu og starfsaðferðir
Sigurgrímur Skúlason
Skipar 14 sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðurþingi