Reykfyllt herbergi og vinnuskjöl á netinuAðsent efni - - Lestrar 556
Stjórnarliðar hafa um helgina ráðist á ráðherra sjávarútvegsmála fyrir það að birta á netinu vinnugögn um breytingar á stjórn fiskveiða. Sömu gögn voru fjórum dögum fyrr lögð fyrir ríkisstjórn og óskað eftir að þau færu þaðan í almenna kynningu í þingflokkum.
Enn sem komið er snýst gagnrýnin á Jón Bjarnason ekki um efni þeirra skjala sem lögð eru fram heldur um eðli stjórnmálanna. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er lofað gegnsæi og opinni stjórnsýslu en mörgum hefur þótt fara lítið fyrir þeirri nýbreytni í t.d. ESB málum eða málefnum sparisjóða svo dæmi séu tekin.
Jón Bjarnason hefur fengið bágt fyrir að fara eftir stefnuskrá Vinstri grænna í mörgum þeim málum þar sem forystan hefur viljað gefa eftir. Nú er honum hótað brottrekstri úr ríkisstjórn fyrir að fara að stefnu ríkisstjórnarinnar um gegnsæja og lýðræðislega stjórnsýslu. Stefna Jóhönnu-stjórnarinnar er að málin skuli rædd í hinum reykfylltu bakherbergjum og vei þeim sem ekki skilur það.
Aðalsteinn Árni Baldursson.
Aðalsteinn sat í vinnuhóp ráðherra sem endurskoðaði frumvarpið um stjórn fiskveiða.