Rekstur skóla og menntun nemenda er sitt hvað

Í orði eru flestir sammála um að góð menntun ætti að vera ein grunnstoða allra samfélaga. Á undanförnum árum hafa aðgerðir menntamálayfirvalda þó frekar

Rekstur skóla og menntun nemenda er sitt hvað
Aðsent efni - - Lestrar 893

Rakel Sigurgeirsdóttir.
Rakel Sigurgeirsdóttir.

Í orði eru flestir sammála um að góð menntun ætti að vera ein grunnstoða allra samfélaga. Á undanförnum árum hafa aðgerðir menntamálayfirvalda þó frekar stuðlað að því að grafa undan skólastarfi í landinu. Það má vera að einhverjum finnist þetta stór orð en þó er líklegra að þeir séu fleiri sem kannast við það alvarlega ástand sem við blasir í menntamálum.

Ekki er heldur annað að sjá en menntamálaráðherra gangist við þessu ástandi í grein sinni „Snúum vörn í sókn“ sem birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember síðastliðinn. Þó þar sé því haldið fram að núverandi ástand megi bæta þá er það viðurkennt að „á sama tíma og skorið hefur verið niður“ í framhaldsskólunum þá hafi nemendum fjölgað meira „en nokkru sinni fyrr“.

En það er ekki bara fjöglun nemenda með auknu vinnuálagi á kennarana sem ógnar þeirri menntun sem skólunum er ætlað að veita. Sú hugmyndafræði að skóla eigi að reka eins og hvert annað fyrirtæki sem skilar hagnaði á þar ekki síðri þátt. Hér mætti líka líta til afleiðingar þessarar markaðsdrifnu hugmyndafræði á fleiri opinberar stofnanir en hér verður horft til þeirra sem hafa grafið undan þeirri samfélagsþjónustu sem lýtur að rekstri skóla og menntunar nemenda.

Misvísandi stefna í rekstri skóla

Það skortir mikið á að hér sé rekin samræmd stefna í skólamálum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Þetta kemur meðal annars fram í því að landsmenn sitja ekki lengur við sama borð hvað þessi mál varðar frekar en þegar kemur að annarri samfélagsþjónustu sem þeir taka þó þátt í að reka með skattgreiðslum sínum. Sú ákvörðun að færa rekstur grunnskóla yfir til sveitarfélaga er skýrt dæmi um skortinn á ígrundaðri stefnu í þessum málaflokki.

Á meðan tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga byggja á sömu forsendum og áður þá er sveitarfélögunum gert að sinna þeirri ríkisskyldu að halda uppi skyldunámi grunnskólans. Afleiðingarnar þekkja þeir best sem búa í dreifðari byggðum landsins. Skólar eru lagðir niður og skólabörnin þurfa að sækja skóla langt að heiman. Þessi ráðstöfun grefur ekki aðeins undan menntuninni heldur ógnar hún áframhaldandi búsetu á sífellt fleiri stöðum úti á landsbyggðinni.

Á sama tíma og ríkið hefur velt rekstri og ábyrgð grunnskólans yfir á sveitarfélögin með framangreindum afleiðingum hefur verið ráðist í að opna tækifæri til framhaldmenntunar í ýmsum fámennari byggðarlögum landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við í ýmsum skilningi en þó einkum þeim að á sama tíma og rekstrarfé rótgróinna framhaldskóla er skorið niður er umtalsverðum fjármunum varið til uppbyggingar nýrra framhaldskóla og framhaldsdeilda.

Tvíbent stefna í menntamálum

Tilfinnanlegt misræmi er líka að finna á núverandi stefnu og viðhorfum varðandi menntunina sjálfa. Í þessu sambandi er einboðið að vísa til þess hvernig hefur verið staðið að innleiðingu nýrra laga um framhaldsskólann frá vorinu 2008. Þrátt fyrir allan þann tilkostnað og tíma sem fór í að setja lögin saman var ýmsum spurningum varðandi menntun nemenda og vinnuþátt kennara enn ósvarað þegar lögin voru samþykkt. Þrátt fyrir þann tíma og þá vinnu sem hefur farið í það að hrinda þeim til framkvæmda síðan hafa svörin ekki fengist enn.

Í fyrstu var áætlað að innleiðingu laganna yrði lokið eigi síðar en 1. ágúst 2011. Fullri gildistöku hefur hins vegar verið frestað til ársins 2015 vegna fjárhagsvanda ríkissjóðs. Það hefur legið fyrir frá upphafi að innleiðingin kostaði peninga. Á meðan þeim er ekki veitt í þetta verkefni og ekki nást samningar sem miða að því að bæta kjör kennara er ljóst að óánægja þeirra eykst. Við slíkar aðstæður búa kennarar ekki aðeins við óviðunandi ástand sem ógnar kjörum þeirra heldur er metnaði stéttarinnar til að veita nemendum góða menntun stefnt í voða.

Misvísandi stefnur menntamálayfirvalda varðandi rekstur menntastofnana, starfið sem þar fer fram og hvernig því skuli háttað teflir ekki aðeins vinnuaðstæðum kennara og menntun nemendanna í hættu heldur grefur það undan framtíð íslensks þekkingarsamfélags. Við því þarf að bregðast tafarlaust með afgerandi hætti ef ekki á illa að fara.

Rakel Sigurgeirsdóttir,
varaformaður framkvæmdaráðs SAMSTÖÐU
og fyrrverandi framhaldsskólakennari.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744