Opið bréf til oddvita Vinstri grænna í NorðurþingiAðsent efni - - Lestrar 532
Kæri Trausti
Ég get líklega ekki sleppt því að senda þér nokkrar línur vegna greinar þinnar í síðasta Skarpi. Þú talar um tíu prósenta taprekstur Norðurþings. Þú veist væntanlega að af 318 milljóna tapi Norðurþings vegna ársins 2009 voru 200 milljónir vegna þess að orkustöð OH var afskrifuð um 200 milljónir. Hvers vegna ertu að láta líta út eins og sveitarfélagið sé með 10% rekstrarhalla. Þú veist að orkustöðin var byggð á valdatíma H-listans og því væntanlega á þína ábyrgð. Það hefði verið hugulsamt af þér að geta þess að tæp 70% af hallanum væri vegna afskriftar á orkustöðinni.
Trausti þú ýjar að því að að óeðlilegt sé að afborganir hækki. Trausti þú veist að samanlögð verðbólga síðustu 3 ára hefur verið um 33% það er því ekki nema eðlilegt að afborganir hækki. Kaldhæðnin er líka sú að stór hluti skuldanna er vegna framkvæmda við Bökugarð, sorpeyðingastöð og orkustöð OH. Allt framkvæmdir frá tíð H-listans sáluga. Þú veist að ef afborganir eru 410 milljónir og nýjar lántökur 330 milljónir þá er verið að borga niður skuldir en ekki taka lán til rekstrar. Þú veist að þú ert þarna að fara með rangt mál, ekki satt?
Ertu kannski virkilega að leggja til að borga niður skuldir um 400 milljónir mitt í efnahagshruninu? Þú talar um að minnka útgjöld Trausti. Hefur þú lesið stefnuskrá V-listans í Norðurþingi Trausti? Þú veist að þar er ekki ein tillaga um niðurskurð, ekki ein einasta. Hinsvegar er ansi margt sem á að efla. Ertu að segja fólki satt Trausti? Af hverju ertu að segjast ætla að minnka rekstrarkostnað en leggur það hvergi til?
Trausti þú talar um að eiginfjárhlutfallið sé ekki nema 4,5%. Þú veist að sveitarfélagið á dulda eign í Þeistareykjum upp á 1,6-1,7 milljarð. Þú hlýtur einnig að átta þig á að fasteignir sveitarfélagsins hafa vegna verðbólgu rýrnað um 20 % umfram eðlilegar afskriftir. Eigið fé sveitarfélagsins er því í raun ekki 287 milljónir heldur liggur á bilinu 2-3 milljarðar. Þú veist þetta væntanlega Trausti?
Þú segir meirihlutann fúlsa við öllum öðrum orkukaupendum en Alcoa væntanlega. Hvaða orkukaupenda höfum við fúlsað við? Hverjum kæri Trausti. Svarið er engum. Hér ert þú einfaldlega að segja ósatt. Félagar þínir hjá Vinstri grænum hafa fagnað öllum hindrunum sem settar hafa verið í veg okkar. Þið fögnuðu og studdu að álver á Bakka færi í sameiginlegt mat þrátt fyrir að inn í því væri einungis 4 af 8 framkvæmdum. Sameiginlega matið er því algjörlega tilgangslaust. Þrátt fyrir að við séum eina samfélagið sem hefur þurft að sæta þessum skilyrðum. Þá hafið þið hvergi mótmælt þessu, einungis fagnað. Jafnvel þó að úrskurðurinn hafi tafið umhverfismat á Þeistareykjum um tæplega tvö ár og haft með sér tugmilljóna kostnað fyrir Norðurþing. Með hverjum eruð þið í liði?
Mig langar að leggja fyrir þig spurningu Trausti sem þú eflaust getur svarað. Hún er eftirfarandi. Varsamið um það við stofnun núverandi ríkisstjórnar að álver á Bakka yrði slegið af? Ég veit að þið í Vinstri grænum mynduð að sjálfsögðu fagna því. Ég hef ekki getað skýrt afstöðu ríkisstjórnarinnar til verkefnisins á annan hátt. Hvers vegna verkefnið sem studdist við svo sterkan fjárfesti fékk ekki inni í stöðugleikasáttmálanum þrátt fyrir að bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hafi stutt það. Hvers vegna fyrir það hafa verið lagðar nýjar og nýjar hindranir.
Málið er að þrátt fyrir efnahagshrun, pólitískt ofbeldi, og fólksfækkun stendur sveitarfélagið Norðurþing keikt, í raun efnahagslega sterkt með furðu öflugan rekstur. Sú staða byggir á samhentum meirihluta, harðduglegum starfsmönnum og ótrúlegri seiglu okkar samfélags.
Kv. Jón Helgi